Jólagjafir
Ég gaf konunni minn brimbrettanámskeið í jólagjöf fyrir nokkrum árum. Brimbrettanámskeið í nágrenni Þorlákshafnar. Mér fannst þetta geggjuð gjöf, hafði sjálfur fengið samskonar afmælisgjöf stuttu áður og fannst magnað að læra að standa á bretti í íslenskum öldum. Ekki það að ég hafi sýnt neina meistaratakta, en náði að hanga á brettinu og skemmti mér konunglega.
Konunni minni fannst þetta ekki jafn geggjuð gjöf. Sendi mér áhugavert augnaráð þegar hún opnaði pakkann. Aðalástæðan fyrir því var líklega að hún var vel ólétt þessi jól, alveg komin á steypirinn, og fannst í því ástandi ekki spennandi að henda sér út í kaldan íslenskan sjó um miðjan vetur.
Þrátt fyrir að hafa aðeins misreiknað mig um þessi jól er ég enn sannfærður um að bestu jólagjafirnar séu hreyfi- og upplifunargjafir. Helst þannig að sá sem gefur gjöfina og sá sem þiggur hana geti farið saman í upplifunarferðina, á námskeiðið, á leikinn eða hvað nú sem gjöfin akkúrat snýst um.
Möguleikarnir eru margir og hægt að sníða þá að þykkum og þunnum veskjum. Það er hægt að kaupa gjöfina en svo er líka hægt að skipuleggja viðburðinn sjálfur, útbúa gjafabréf og sjá um framkvæmdina. Ég held að við höfum flest pláss og þörf fyrir meiri samveru með þeim sem standa okkur svo nærri að við gefum þeim gjafir og með upplifunargjöf getur maður slegið tvær flugur í einu höggi. Gefið góða gjöf og fengið góða og skemmtilega samveru í leiðinni.
Ég gæti talið upp ótal atriði sem hægt er að flokka sem upplifunargjöf. En ég ætla ekki að gera það. Frekar ætla ég að hvetja þig til að velta fyrir þér hvað sá/sú sem þú gefur gjöf hefur gaman af að gera. Eða gæti haft gaman af að gera. Bara passa sig á að gefa ekki háóléttri eiginkonu brimbrettanámskeið að vetri til.
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 29. nóvember 2018