Jana gefur kost á sér í 2. sæti í prófkjöri
Jana Katrín Knútsdóttir gefur áfram kost á sér í 2. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna sem fram fer 31. janúar. Jana er hjúkrunarfræðingur að mennt með meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands. Jana hefur starfað innan heilbrigðiskerfisins í um 16 ár og starfar í dag sem deildarstjóri á smitsjúkdómadeild Landspítala. Samhliða hefur hún sinnt hlutverki sínu sem bæjarfulltrúi, bæjarráðsmaður og fulltrúi í velferðarnefnd sl. kjörtímabil og verið á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í síðustu tveimur Alþingiskosningum.
Jana er gift Magnúsi Pálssyni, aðalvarðstjóra hjá Ríkislögreglustjóra og eiga þau saman tvö börn, Anítu 15 ára og Loga Pál 9 ára. „Mig langar að nýta þá reynslu sem ég hef öðlast á kjörtímabilinu til að halda áfram að leggja mitt af mörkum í uppbyggingu og framþróun í bæjarfélaginu. Ég er full af krafti og vilja til góðra verka í þágu bæjarbúa.“




