Jákvæð afkoma hjá Mosfellsbæ á síðasta ári

Halla Karen Kristjánsdóttir

Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2024 hefur verið birtur.
Niðurstaðan er vel ásættanleg í krefjandi rekstrarumhverfi. Rekstur ársins skilaði um 877 milljóna afgangi og aðrar lykiltölur eins og veltufé frá rekstri og skuldahlutfall eru innan viðmiða. Heildartekjur Mosfellsbæjar námu um 22 milljörðum á síðasta ári, laun og launatengd gjöld tæpum 11 milljörðum og annar rekstrarkostnaður rúmum 8 milljörðum. Uppgjörið var í góðu samræmi við þær áætlanir sem gerðar höfðu verið fyrir tímabilið.

Hvaðan koma tekjurnar?
Tekjur bæjarins jukust um tvo milljarða milli ára en þar munar mestu um útsvarið (sem hækkar með almennum launahækkunum og íbúafjölgun) og framlög úr jöfnunarsjóði sem námu tæpum 4 milljörðum eða um 23% af skatttekjum. Sá tekjupóstur sem fær oft mikla athygli við fjárhagsáætlunargerð eru fasteignaskattar. Það er áhugavert að staldra við þá staðreynd að fasteignaskattur á síðasta ári skilaði sveitarfélaginu tæplega 1.5 ma.kr. í tekjur sem eru tæp 9% af skatttekjum. Ekki stór – en mikilvægur hluti af tekjustofnum sveitarfélaga.

Aldís Stefánsdóttir

Flestir sem tjá sig um fasteignaskatta eru almennt sammála því að það sé ósanngjarnt hvernig þeir eru reiknaðir. Að fólk sem á sitt húsnæði og er ekkert á því að fara að selja þurfi að borga hærri skatt af því að nágranninn seldi sína fasteign á hærra verði en sá sem seldi árið áður. Ekkert sérstaklega sanngjarnt kannski en þetta er kerfið sem við búum við. Núverandi meirihluti bæjarstjórnar hefur, líkt og sá sem fór á undan, aðlagað skattprósentuna þannig að hún haldi í við verðlagsþróun en ekki látið þær fasteignahækkanir sem fasteignaeigendur í Mosfellsbæ hafa „notið“ skila sér að fullu í auknum skatttekjum. Það er ágæt leið en betra væri að ríkisvaldið skoðaði leiðir til að bæta tekjustofna sveitarfélaga með öðrum hætti.

Hvað erum við svo að borga fyrir?
Á gjaldahliðinni eru í raun litlar breytingar hlutfallslega á milli ára. Til fræðslumála fara sem fyrr rúmlega helmingur skatttekna Mosfellsbæjar eða um 53%. Samtals fara til fræðslu–, velferðar– og íþrótta- og tómstundamála um 85% af skatttekjum. Það gefur því auga leið að ekki er mikill afgangur til að verja til annarra málaflokka. En þá eru ótalin verkefni

Sævar Birgisson

vegna skipulagsmála, menningarmála, stjórnsýslu o.fl.
Það sem er áhugavert í þessum ársreikningi er hátt fjárfestingarstig. Alls var fjárfest fyrir um 3.3 milljarða króna á síðasta ári. Þar af fóru rúmir 2 milljarðar í skólabyggingar (leik- og grunn). Stærsta einstaka fjárfestingin er bygging á nýjum leikskóla í Helgafellslandi og íþróttahús við Helgafellsskóla. Endurbætur við Kvíslarskóla voru kláraðar og í endurbætur við eldra skólahúsnæði eins og leikskólann Reykjakot og Varmárskóla fóru um 400 milljónir. Þá var 343 milljónum varið til uppbyggingar íþrótta- og tómstundamannvirkja á síðasta ári. Hátt fjárfestingarstig fylgir sveitarfélagi í vexti. Svo hefur verið um nokkra hríð í Mosfellsbæ og verður áfram.
Það er nauðsynlegt að stöðugt sé verið að gæta að heilbrigði og sjálfbærni í rekstri Mosfellsbæjar. Það er svo sannarlega markmiðið áfram á sama tíma og við byggjum upp innviði og veitum framúrskarandi nærþjónustu til íbúa sveitarfélagsins.

Örvar

Halla Karen Kristjánsdóttir
Aldís Stefánsdóttir
Sævar Birgisson
Örvar Jóhannsson
bæjarfulltrúar Framsóknar í Mosfellsbæ