Íþróttir og áfengi

Ég hitti góðan félaga á körfuboltaleik um síðustu helgi. Sömu helgi og það voru hópslagsmál í stúkunni eftir leik Keflavíkur og Grindavíkur í úrslitakeppni karla. Félaginn hefur áhyggjur af því hvað það er orðið vinsælt og sjálfsagt að selja bjór á leikjum á Íslandi. Í öllum hópíþróttunum, körfubolta, handbolta og fótbolta. Ég deili þessum áhyggjum með honum. Við Íslendingar erum ekki beinlínis heimsfræg fyrir að kunna að fara vel með áfengi, það er ennþá inngróið í taugakerfi þjóðarinnar að drekka mikið og hratt þegar tækifæri gefst eftir áratugi af bjórbanni.

Við erum að sjá í auknum mæli félög selja bjór fyrir og á meðan leik stendur, opinberi tilgangurinn er að vera í takt við tímann – það er jú hægt að kaupa bjór á leikjum erlendis, af hverju ekki hér? En raunverulegi tilgangurinn er tekjuöflun, félög skapa sér tekjur með því að selja þyrstum bjór í kringum leiki. Bjórsölumenn elska þennan markað, íþróttaheimurinn er í endalausri endurnýjun. Leikmenn í yngri flokkum mæta margir á völlinn til að styðja sín lið, þeir eru móttækilegir og opnir fyrir hegðun þeirra eldri.

Bjórtjöldin eru ekki beinlínis falin, þau eru fyrir allra augum. Og þeir sem kaupa bjór taka hann með sér á áhorfendapallana. Eru þar með fyrirmyndir þeirra yngri, ómeðvitað eða meðvitað. Ég hitti einn sótblekaðan á mínum aldri á handboltaleik í Mosfellsbænum í þar síðustu viku. Seinni hálfleikur var að byrja og ég þurfti að hjálpa honum að finna leiðina út, hann gat ekki haldið sér á löppunum lengur.

Er þetta sniðugt? Er góð hugmynd að selja áfengi á íþróttaleikjum? Passar þetta vel saman? Bjórfyrirtækin eru líka að taka yfir hlaðvarpsheiminn. Eru styrktaraðilar flestra ef ekki allra stærstu fótboltahlaðvarpana þar sem hressir hlaðvarpsstjórar dásama bjórtegund stuðningsaðilans og taka þar með þátt í að búa til sterka tengingu milli áfengis og íþrótta.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 9. maí 2024