Ímynd Mosfellsbæjar – Hver er sérstaðan?

Auður Sveinsdóttir

Þegar spurt er hver eru sérkenni Mosfellsbæjar geta svörin orðið með ýmsu móti, til dæmis:
Þjóðvegur nr. eitt og leiðin til Þingvalla liggja þvert í gegnum bæinn.
Mosfellsbær er „úthverfi Reykjavíkur“.
Mosfellsbær er svefnbær!
Svörin geta líka verið allt önnur, í samræmi við viðhorf og upplifun hvers og eins. En burtséð frá því er full þörf á því að við Mosfellingar spyrjum okkur hver ímynd og séreinkenni Mosfellsbæjar eigi að vera í bráð og lengd.

Hvað er staðarvitund?
Með sjö ára búsetu hér í bænum kynnist ég staðháttum sífellt betur og það styrkir jafnframt vitund mína um þá möguleika sem geta aukið lífsgæði okkar Mosfellinga.
Sérhver staður hefur sín sérkenni – eitthvað sérstakt/einstakt fram yfir aðra, þetta má kalla staðaranda og staðarvitund og tengist til dæmis:
• umhverfi – landslagi – (strönd – fell – dalir – stöðuvötn).
• sögu – menningarminjum – listum – gömlum atvinnuháttum.
Staðarandi/staðarsjálfsmynd geta aukið vellíðan íbúanna, þeir tengjast betur bæjarfélaginu og verða meðvitaðri um sérstöðu sinnar heimabyggðar. Sterkur staðarandi er einnig aðdráttarafl fyrir ferðamenn og fyrirtæki og eykur áhuga þeirra á sveitarfélaginu. Veikan staðaranda er hægt að styrkja með góðri og meðvitaðri hönnun og skipulagi þar sem sóknarfæri og aðstæður byggja meðal annars á sögu, menningu og umhverfi og geta orðið að ákveðinni sérstöðu.
Mosfellsbær hefur sérstöðu innan höfuðborgarsvæðisins með afar fjölbreytta náttúru, landslag og menningarminjar,innan sinna marka, til dæmis fellin, heiðarlandslag, strandlengju í Leiruvogi og stöðuvötn upp til heiða.
Í mínum huga eru ótal tækifæri til að byggja upp og efla enn frekar sterka staðarvitund/staðaranda í Mosfellsbæ, tæki til þess eru til dæmis:
• Orkuskipti síðustu aldar með nýtingu jarðhitans – það var framkvæmd á heimsvísu sem er jafnframt innlegg í loftslagsumræðu nútímans. Nýlega undirrituðu Mosfellsbær og Veitur viljayfirlýsingu um uppbyggingu jarðhitagarðs í Reykjahverfi til að halda þessari merku sögu á lofti.
• Uppbygging ullariðnaðar á Álafossi með nýtingu vatnsorkunnar var mikið og sögulegt frumkvöðlastarf.
• Margar merkar sögulegar staðreyndir tengjast Mosfellsbæ og fjöldi menningarminja er hér að finna. Þar má nefna þjóðleiðir á Mosfellsheiði, Hafravatnsrétt, hersetuna, ylrækt, gamla búskaparhætti
• Listsköpun af margvíslegum toga.
• Náttúruminjar og friðlýst svæði.
• Fjölbreytileiki landslagsins frá fjöru til fjalla og um leið fjölbreyttir útivistarmöguleikar.

Hafravatnssvæðið
Hafravatn og nágrenni þess í sunnanverðum Mosfellsbæ er útvistarsvæði sem auðvelt er að tengja við staðarvitund og hina metnaðarfullu umhverfisstefnu Mosfellsbæjar. Útivistarmöguleikar á Hafravatnssvæðinu eru fjölmargir, hér verða nokkrir nefndir til sögunnar:
• Gönguleiðir, hjóla- og reiðleiðir sem tengjast aðliggjandi svæðum, bæði fellum, Mosfellsheiði og þéttbýli bæjarins.
• Vegur („útivistarvegur“) meðfram vatninu með 30–40 km hámarkshraða, einnig leið fyrir gangandi og hjólandi umferð, auk reiðleiðar.
• Aukið aðgengi að vatninu.
• Siglingar (kajak, kanó, seglbátar o.fl.).
• Silungsveiði, sumar og vetur.
• Svifdrekar.
• Náttúruskoðun um fjölbreytt landslag: Skóglendi, votlendi og fjörur.
• Menningarminjar, til dæmis Hafravatnsrétt og gullnáman í Þormóðsdal.
• „Græni trefillinn“ er samheiti yfir útivistar- og skógræktarsvæði í útjaðri höfuðborgarsvæðisins, þar á meðal Mosfellsbæjar.
• Baðaðstaða við Hafravatn sem samþykkt var í íbúakosningunni „Okkar Mosó“.
Mikilvægt er að fá skýra stefnu um nýtingu Hafravatnssvæðisins til að það geti orðið að „paradís“ útivistar á höfuðborgarsvæðinu og um leið hluti af sterkum staðaranda Mosfellsbæjar. Sú stefna myndi tengjast aðalskipulagi bæjarins og þeim markmiðum sem sett hafa verið fram í samræmi við heilsueflandi samfélag, útivist, lýðheilsu og loftslagsmál.
Ég legg til að tekið verði upp samtal milli ólíkra hagsmunaaðila við Hafravatn sem leiði til stefnumörkunar og verði grunnur að útivistardeiliskipulagi svæðisins. Í stefnuskrá V-listans fyrir komandi kosningar er lögð áhersla á að styrkja enn frekar staðarvitund Mosfellsbæjar og efla útivistarmöguleika Hafravatnssvæðisins með tengingu við fjöll og dali þar í grenndinni.

Auður Sveinsdóttir, skipar 8. sæti
V-listans í kosningunum 14. maí