Íbúar ánægðir með Í túninu heima 2025

Bæjarhátíð Mosfellsbæjar, Í túninu heima, fór fram dagana 28. til 31. ágúst í frábæru veðri. Hátíðin fagnaði 20 ára afmæli sínu í ár og voru um hundrað viðburðir á dagskrá.
Á hátíðinni var að finna hefðbundna dagskrárliði, svo sem brekkusöng í Álafosskvos, flugvéla- og fornbílasýningu á Tungubökkum, götugrill og stórtónleika en þeir voru fluttir fram á sunnudag og haldnir á Hlégarðstúninu.
Vegna mikillar umræðu í aðdraganda hátíðarinnar, um tilfærslu á staðsetningu og tímasetningu á tónleikunum, töldu bæjaryfirvöld mikilvægt að fá fram sjónarmið íbúa í kjölfar hátíðarinnar.

Könnunin opin öllum áhugasömum
Könnunin var opin öllum áhugasömum á vef Mosfellsbæjar, samfélagsmiðlum bæjarins, Bólsins og Mosfellings.
Alls bárust 566 svör. Um 82% þátttakenda mátu fjölbreytni og gæði dagskrár frekar eða mjög góð.
Þegar horft er til þátttöku stóðu ákveðnir viðburðir skýrt upp úr, þar á meðal, stórtónleikarnir (58%), Ullarpartýið í Álafosskvos (50%), fjölskylduvænir viðburðir (45%), götugrillin (42%), Gullgarðurinn við Hlégarð (34%) og tívolíið (33%).

Götugrill fengu aukið svigrúm
Götugrillin skipuðu stóran sess í upplifun íbúa, en 56% svarenda áttu þess kost að taka þátt í götugrilli. Það myndaðist skemmtileg stemning í hverfunum og margir svarenda lýstu ánægju með að hafa nægan tíma til að njóta samverunnar án þess að þurfa að flýta sér á tónleika.
Að auki var mikil ánægja með þá nýbreytni að bjóða upp á trúbadora og pylsur í boði Mosfellsbæjar í götugrillin.

Stórtónleikar færðir á sunnudag
Eins og fram hefur komið var sú breyting gerð á dagskrá hátíðarinnar í ár að flytja stórtónleikana frá laugardagskvöldi til eftirmiðdags á sunnudeginum. Ástæðan var fjöldi gesta undir lögaldri sem voru einir á ferð undanfarin ár og var því markmiðið með nýrri tímasetningu að skapa fjölskylduvæna stemningu og auka rými fyrir götugrillin.
Stór hluti svarenda, eða 64%, telur breytinguna að færa stórtónleikana yfir á sunnudag vera góða. Svarendur töldu að með tilfærslunni hefði hátíðin orðið fjölskylduvænni, afslappaðri og lengt stemninguna yfir helgina.

Ungmennin ekki hlynnt breytingunum
Hins vegar kemur fram að óánægja með breytinguna er meðal yngsta aldurshópsins, 20 ára og yngri, en 82% þeirra telja breytinguna slæma. Skýrar ábendingar komu jafnframt fram í könnuninni um að skort hafi viðburði sem höfði til ungmenna á aldrinum 15-20 ára.
Margir svarenda nefndu einnig veðrið sem lykilþátt í stemningu og jákvæðri upplifun af hátíðinni. Mosfellsbær getur því miður ekki stjórnað sólinni og veðrinu, en hún hjálpaði engu að síður til að gera bæjarhátíðina okkar í ár enn eftirminnilegri.

Niðurstöðurnar nýttar
Regína bæjarstjóri segir að: „Mosfellsbær mun nýta niðurstöðurnar til að efla hátíðina enn frekar. Við sjáum tilefni til að rýna sérstaklega viðburði fyrir ungmennin okkar og munu við gera það í góðu samtali við þau.
Mig langar að koma á framfæri þakklæti til Mosfellinga fyrir virka þátttöku í hátíðinni og fyrir að svara könnuninni, en endurgjöf sem þessi er mikilvæg til að við getum þróað og bætt hátíðina okkar.“