Í túninu heima 20 ára
Bæjarhátíðin Í túninu heima verður haldin 28. til 31. ágúst og fagnar hátíðin 20 ára afmæli í ár. Dagskráin er fjölbreytt og glæsileg að vanda.
Hátíðin verður formlega sett á hátíðardagskrá í Hlégarði á fimmtudegi. Þá fer fram útnefning bæjarlistamanns og veittar verða umhverfisviðurkenningar.
Allir taka þátt
Íbúar, félagasamtök og fyrirtæki leggja sitt af mörkum til hátíðarinnar og dagskráin er þannig úr garði gerð að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Mosfellingar prýða hús og garða í litum hverfanna fjögurra og skapa þannig sérstakt svipmót í bænum. Líkt og undanfarin ár verður hægt að njóta fjölda góðra tónleika í görðum bæjarins, en „Mosfellingar bjóða heim“ er eitt af sérkennum hátíðarinnar. Listamenn bæjarins taka einnig þátt með því að opna vinnustofur sínar og bjóða gesti velkomna.
Í garðinum við Hlégarð verður glatt á hjalla á föstudag og kjörið að staldra þar við áður en skrúðgangan leggur af stað frá Miðbæjartorgi með hestamannafélagið Hörð í fararbroddi. Leiðin liggur í Ullarpartý í Álafosskvos, þar sem Mosfellingar sameinast í brekkusöng. Björgunarsveitin Kyndill kveikir á blysum og baðar kvosina í bleikum lit.
Eftir að hafa notið fjölbreyttrar dagskrár vítt og breitt um bæinn á laugardag safnast íbúar Mosfellsbæjar í götugrill í skreyttum götum bæjarins. Í tilefni af 20 ára afmæli hátíðarinnar styrkir Mosfellsbær skipuleggjendur götugrilla með pylsum og pylsubrauðum, auk þess sem trúbadorar munu sjá um að skapa stemningu. Þegar fer að dimma geta bæjarbúar séð Helgafell uppljómað í hátíðarbúning.
Breytingar á fjölskyldutónleikunum
Einn af hápunktum hátíðarinnar hefur verið sá að Mosfellingum og gestum þeirra er boðið á fjölskyldutónleika á bæjartorginu. Í ár var ákveðið að flytja fjölskyldutónleikana frá laugardagskvöldi til seinni parts á sunnudegi og halda þá á Hlégarðstúninu. Tilgangur þess er að leitast við að brjóta upp það mynstur sem sést hefur síðastliðin tvö til þrjú ár. Frá árinu 2022 hefur fjöldi gesta undir lögaldri sem voru einir á ferð í Mosfellsbæ aukist verulega. Sú þróun náði hápunkti í fyrra sem kallaði á aukna löggæslu, kaup á öryggisgæslu, aukna viðveru barnaverndarstarfsmanna og athvarf fyrir þá unglinga sem þurftu aðstoð.
Þessi breyting hefur vakið upp ólík viðbrögð meðal bæjarbúa, en markmiðið er að tryggja jákvæða og fjölskylduvæna stemningu á hátíðinni.
Heilsueflandi hátíð að vanda
Að vanda eiga íþróttir sinn mikilvæga sess á dagskrá hátíðarinnar.
Tindahlaup Mosfellsbæjar er eitt vinsælasta utanvegahlaup landsins. Tindahlaupið er samstarfsverkefni Mosfellsbæjar, Björgunarsveitarinnar Kyndils og blakdeildar Aftureldingar.
Fellahringurinn verður haldinn í sjöunda sinn, en í honum er hjólað um stíga og slóða umhverfis fellin í Mosfellsbæ.
Hundahlaupið fer fram í annað sinn í Mosfellsbæ, en markmið þess er að kynna öðruvísi nálgun á útivist með hundum.
Ný fjölskyldufjallahjólabraut verður opnuð í Ævintýragarðinum og þá verður haldið skákmót í Varmárskóla en opnar skákæfingar hefjast þar nú í haust. Fótboltamót Aftureldingar og Gæðabaksturs fyrir 7. og 8. flokk karla og kvenna verður haldið á Tungubökkum.
Þá verður síðasta umferðin í Íslandsmótinu í motocross haldin í hinni stórkostlegu braut MotoMos í Leirvogstungu.
Fyrir börn og ungmenni
Margt verður um að vera fyrir börnin á bæjarhátíðinni.
Sirkus Ananas stýrir skemmtilegri sirkussmiðju á uppskeruhátíð sumarlesturs bókasafnsins á miðvikudag, og á laugardag verður ÞYKJÓ með skemmtilega smiðju í bókasafninu þar sem ungir sem aldnir geta föndrað náttúrukórónur.
Brúðubíllinn sýnir í Álafosskvos, teymt undir börnum og hoppukastalar á Stekkjarflöt.
Slökkvistöðin við Skarhólabraut verður til sýnis og gestum býðst að skoða bíla, tæki og búnað slökkviliðsins í bílasal.
Ýmislegt er á dagskrá sem er ætlað ungmennum. Í Hlégarði verður slegið upp tveimur böllum, fyrir miðstig og efsta stig grunnskóla. Félagsmiðstöðin Ból stendur fyrir sápubolta á túninu við Hlégarð en sá viðburður sló í gegn í fyrra. Ungum hljómsveitum gefst kostur á að flytja tónlist sína á sviði í Álafosskvos á laugardag.
Buslandi bæjarhátíð
Í Lágafellslaug verða fjórir spennandi viðburðir. Sundlaugarkvöldið býður upp á skemmtun fyrir alla aldurshópa með Blaðraranum, Lalla töframanni og DJ Baldri. Í anddyri laugarinnar opnar samsýning Bonís og BrummBrumm. Stórtónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands verða sýndir í beinni útsendingu í innilaug Lágafellslaugar á föstudagskvöld og boðið verður í sundlaugarbíó á laugardagskvöld.
Mosfellsbær og Mosfellsbakarí bjóða upp á ljúffenga afmælisköku í tilefni 20 ára afmælis bæjarhátíðarinnar fyrir utan Mosfellsbakarí á laugardag.
Hér má sjá dagsrá hátíðarinnar í heild sinni.