Í sumarbyrjun
COVID-19, í senn áskoranir og tækifæri
Öll þekkjum við glímuna við veiruna skæðu sem undanfarna rúma tvo mánuði hefur ekki aðeins breytt daglegu lífi okkar Mosfellinga heldur allra Íslendinga og íbúa heimsins. Ýmsar áskoranir hafa mætt starfsfólki í hinum ýmsu þjónustustörfum hjá Mosfellsbæ, skipuleggja hefur þurft breytt vinnubrögð, setja upp viðbragðsáætlanir, sóttvarnir og svo framvegis. Þessar áskoranir hafa starfsmenn leyst vel úr hendi og af yfirvegun og það ber að þakka.
Við kjörnir fulltrúar í bæjarstjórn og nefndum bæjarins höfum einnig þurft að breyta venjum okkar varðandi fundarhöld. Tækifæri okkar fólst m.a. í því að með breytingu á sveitarstjórnarlögum var heimilað að halda svokallaða fjarfundi. Skemmst er frá því að segja að sú frumraun tókst með miklum ágætum og ekki kæmi á óvart og reyndar væri skynsamlegt að útvíkka þessa heimild þannig að nota mætti hana í venjulegu árferði ef svo ber undir og þá væri þessi heimild til staðar þegar við þurfum næst á að halda.
Þegar er ljóst að efnahagslegar afleiðingar af COVID-19 verða miklar, sumir hagfræðingar segja þær mestu sem heimurinn hefur upplifað. Mosfellsbær mun því miður ekki fara varhluta af þessu. Núna eru fram undan og bíða okkar bæjarfulltrúa áskoranir í þessum efnum bæði hvað varðar áhrif þessa á núgildandi fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2020 og þá ekki síður vegna komandi fjárhagsáætlunar fyrir árið 2021. Tækifæri okkar og áskorun liggur í því að okkur auðnist að taka ákvarðanir í þessum efnum, með samtali þar sem allar raddir fái að hljóma, af yfirvegun og af ábyrgð.
Skipulagsmál
Núna er hafin í skipulagsnefnd vinna við endurskoðun á aðalskipulagi fyrir Mosfellsbæ. Aðalskipulag hvers sveitarfélags er eins konar stjórnarskrá um fjölmarga hluti. Hluti eins og hvar við ætlum að byggja og hvernig, hvar útivistarsvæðin eigi að vera, hvar eigi að vera hverfisvernd og fjölmörg önnur atriði sem hér er of langt mál að tíunda. Þetta verður í senn krefjandi en líka spennandi verkefni því hver vill ekki eiga hlut í að semja stjórnarskrá sem ætlað er að vera lifandi plagg um áratugi. Hugur þess sem þetta ritar er að Mosfellingar hafi sem mesta og besta aðkomu að þessari endurskoðun.
Vonandi tekst okkur Mosfellingum að gæta áfram allra varúðarreglna og takast sem best á við veiruna skæðu. Með þeim orðum óska ég Mosfellingum öllum gleðilegs sumars og velfarnaðar.
Stefán Ómar Jónsson
Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar