Hvetur hjartahlýja Mosfellinga til að grafa dýpra

„Ég vil hvetja öll þau sem er annt um konurnar í lífi sínu til að grafa dýpra,“ segir Arnar Logi Ólafsson Hólm, framkvæmdastjóri Ljárdals, fyrirtækis sem sérhæfir sig í sölu á vinnuvélum, um uppboð á bleikri gröfu sem hann stendur fyrir nú í september til styrktar Bleiku slaufunni.
Bleika grafan er af gerðinni HT-10 en slík týpa kostar almennt án afsláttar 1,6 milljónir króna. Hæsta boð í vélina er nú milljón krónur, „sem er algjörlega frábært,“ segir Arnar Logi, „en ég hef trú á að í Mosfellsbæ leynist framkvæmdamanneskja með hjartað á réttum stað sem er tilbúin að bjóða enn betur.“ Hver einasta króna fer til Bleiku slaufunnar.
Hann minnir á að það eru fáir dagar til stefnu því sá sem á hæsta boð í lok dags 30. september eignast gröfuna. Hún verður svo afhent við upphaf árvekni- og fjáröflunarátaks Krabbameinsfélagsins, Bleiku slaufunnar, í byrjun október.

Viðtökurnar frábærar
„Mínar rætur liggja í Mosfellsdalnum og ég veit að Mosfellingar eru ekki aðeins með stærsta hjartað heldur drífandi og verkglaðir,“ segir Arnar Logi. Bleika grafan, sem er aðeins eitt tonn að þyngd og því lipur og snör í snúningum, er góður vinnufélagi í garðinn eða sumarbústaðalandið.
Fyrirtækið Ljárdalur var stofnað í september 2023 og fagnar nú tveggja ára afmæli. „Viðtökurnar hafa verið hreint út sagt frábærar og við höfum afhent tæplega 200 vinnuvélar af ýmsum stærðum og gerðum,“ segir Arnar Logi sem segist leggja sig fram við að bjóða bestu verðin og veita öllum framúrskarandi þjónustu.

Kílómarkaður á gröfum
„Til að gefa til baka og þakka fyrir okkur ákváðum við að flytja inn bleiku vélina og bjóða hana upp,“ segir Arnar Logi. En hann lætur ekki aðeins þar við sitja. „1.000 krónur kílóið er búið að blunda í okkur lengi,“ segir hann um nýjasta útspil Ljárdals og útskýrir frekar:
„Með styrkingu krónunnar og frábærum afmæliskjörum frá verksmiðjunni okkar getum við boðið viðskiptavinum að kaupa gröfur sem eru frá 1 upp í 2 tonn á 1.000 krónur kílóið!“
Verðið er án VSK. Á kílómarkaði þessum fæst 690.000 króna afsláttur af HT20 gröfunni. „Verðbólga hvað!“

Hér má bjóða í bleiku gröfuna.