Hvert fara skattpeningarnir þínir?

Aldís Stefánsdóttir

Þegar kjörnir fulltrúar fjalla um fjármál sveitarfélaga þá er mikilvægt að þeir geri það með þeim hætti að íbúar skilji stóru myndina.
Það er ósanngjarnt að taka út litla búta af púslinu sem sýna í raun bara það sem fólk vill sýna hverju sinni en lætur þann sem hlustar, eða les, um að geta sér til um hvernig heildarmyndin lítur út í raun og veru. Þannig verður umræðan ómarkviss og full af staðreyndavillum.
Að fjalla um rekstur sveitarfélags er í raun ekki alveg einfalt mál og kannski ekkert voðalega skemmtilegt heldur. En flest viljum við samt vita hvernig gengur og í hvað skattpeningarnir okkar fara.

Hvað má eyða miklu núna?
Þegar við veltum fyrir okkur hvað má eyða miklum peningum í heimilisbókhaldinu þá byrjum við á að skoða tekjurnar ekki satt? Á þessu ári eru áætlaðar tekjur Mosfellsbæjar í A hluta um 21.1 ma.
Af þessum tekjum fara um 11 milljarðar í laun og launatengd gjöld þegar tekið er tillit til nýlegra kjarasamninga. Annar rekstrarkostnaður nemur rúmum 10 milljörðum.
Má ekki alltaf gera betur?
Miðað við þetta umfang þá er nauðsynlegt að það fari fram reglulega skoðun á því hvort hægt sé að gera betur í rekstrinum. Við fjárhagsáætlunargerð ársins 2025 var lagt upp með að leitað yrði leiða við að hagræða um 200 milljónir. En það er um 1% af heildargjöldum. Hagræðingarkrafan var sett á allan rekstur bæjarins. Ekki bara á fræðslumál eða á grunnskólana. Í því felst engin gagnrýni á það sem gert hefur verið. Þetta er einfaldlega eðlileg krafa í rekstri. Sá meirihluti sem fer með stjórnartaumana að þessu sinni telur að stjórnendur stofnana séu vel til þess fallnir að koma með tillögur að því hvar má hagræða. Enda hafa nú þegar verið lagðar fram góðar tillögur sem hafa ekki afgerandi áhrif á reksturinn og fela ekki í sér fækkun stöðugilda né minna þjónustustig. Þær staðhæfingar að þessar hagræðingaraðgerðir séu skaðlegar skólastarfinu og feli í sér þjónustuskerðingu eru rangar.
Að stilla upp einni ákvörðun á móti annarri eins og forvarnarátakinu Börnin okkar og þeirri kröfu að grunnskólarnir okkar (sem velta um sex milljörðum króna) leiti leiða til hagræðingar um samtals 100 milljónir króna á þessu ári er í besta falli einföldun.
Umræðan á síðasta ári og undanfarnar vikur og mánuði um málaflokk barna. Aukningu á vímefnanotkun, ofbeldi, vopnaburði og vanlíðan barna verður að mæta með aðgerðum. Það teljum við okkur hafa gert með afgerandi hætti og erum sátt með þá ákvörðun.

Allar hugmyndir velkomnar
Eins og rakið hefur verið hér þá erum við að vinna með takmarkaða fjármuni. Það er nánast ógjörningur að sækja frekari tekjur þar sem það kæmi illa niður á heimilunum og það er ekki í samræmi við markmið hins opinbera um að lækka verðbólgu og vexti. Þannig verðum við að vinna með gjaldahliðina – þó að það sé einnig afskaplega vandmeðfarið þar sem sveitarfélög veita viðkvæma og mikilvæga nærþjónustu – lögbundna og ólögbundna. Við fetum því stíginn mjóa og reynum að taka góðar ákvarðanir í samstarfi við þau sem veita og þiggja þessa góðu þjónustu.

Aldís Stefánsdóttir
bæjarfulltrúi Framsóknar í Mosfellsbæ og formaður fræðslunefndar