Hvað vantar í aðstöðuna við Varmá?
Hér í bæ er áberandi hve margvísleg tækifæri eru til þess að rækta líkamann (og hugann þar með).
Það á við alla aldursflokka og ekki hvað síst við 60+ aldursflokkinn og til dæmis starf FAMOS og Gaman saman. Enn fremur alls konar tilboð og atburði sem felast í stefnumiði bæjarins og kjarnast í hugtakinu heilsueflandi samfélag.
Góð lýðheilsa er ótrúlega mikilvæg. Áhrif hennar á efnahag fólks og sveitarfélagsins eru mikil og líka á líðan hvers og eins og á andann í Mosfellsbæ.
Eftir því sem greina má er fyrirhugað að stækka húsnæði íþróttaklasans við Varmárlaug á næstunni. Leitað er eftir hugmyndum um starfsemi sem þar gæti farið fram og áhugasömum aðilum sem gætu sinnt henni.
Hvað sem komið hefur fram í þeim efnum er eitt ljóst í mínum huga: Sá þáttur heilsueflandi starfsemi sem ber einna mestan árangur er líkamsrækt með tækjum, lóðum og liðkandi æfingum. Slík aðstaða var í klasanum en var lokað. Samfélagið stækkar og hópurinn 60+ enn hraðar en áður.
Ég tala fyrir munn margra þegar ég skora á sveitarstjórn að fella inn í komandi framkvæmdir góðan líkamsræktarsal með viðveru a.m.k. eins starfsmanns sem er vel sjóaður í því sem þar fer fram, hvort sem reksturinn er boðinn út eða ekki.
Þar með væri stoðin enn sterkari undir heilsueflandi samfélaginu sem allir eru sammála um að sé af hinu góða. Fleiri mættu láta í sér heyra varðandi fyrirhugaðar framkvæmdir.
Ari Trausti Guðmundsson