Hvað hefur áunnist

Halla Karen Kristjánsdóttir

Fyrir tæplega þremur og hálfu ári var gengið til kosninga til sveitarstjórna og því liggur fyrir að það styttist í að við kjósum aftur. Já, tíminn líður raunverulega svona hratt. Á þessum tímamótum veltum við auðvitað fyrir okkur hverju við í meirihlutanum, sem samanstendur af Framsókn, Samfylkingu og Viðreisn, höfum áorkað á þessum tíma sem liðinn er.
Það fylgir því mikil ábyrgð að vera í bæjarstjórn og stýra heilu sveitarfélagi. Öll verkefnin sem fjallað er um eða beðið er um að við tökum fyrir þarf að skoða og meta frá öllum hliðum og ávallt er verið að gæta almannahagsmuna og viðhafa gagnsæi og lýðræðisleg vinnubrögð varðandi allar ákvarðanir. Að baki þessum ákvörðunum liggja margar vinnustundir, símtöl, fundir og viðræður sem svo oft eru ekki sýnilegar bæjarbúum.

Hér á eftir verður stiklað á stóru og listuð upp helstu viðfangsefnin, stór sem smá.
Listinn er alls ekki tæmandi og kjörtímabilið ekki búið þannig að hann er stöðugt í vinnslu:
• Kvíslarskóli endurnýjaður og nútímavæddur
• Varmárskóli – miklar endurbætur og viðhald

Aldís Stefánsdóttir

• Skólalóðir er verið að endurbæta í samvinnu við nemendur og skólastjórnendur
• Endurbætur á leikvöllum.
• Forvarnarverkefnið „Börnin okkar“
• Samið við Bergið headspace um þjónustu í Mosfellsbæ fyrir ungt fólk til 25 ára
• Sálfræðiþjónusta í skólana og opin foreldralína fyrir foreldra unglinga.
• Félagsmiðstöðvar – Opnunartími hefur verið lengdur, nú er opið allt árið.
• Brúarland endurnýjað og félagsstarf eldra fólks er flutt þangað. Húsið iðar af lífi og mikill uppgangur í félagsstarfi eldra fólks.
• Hlégarður tekinn í rekstur hjá sveitarfélaginu og viðburðastjóri ráðinn.
• Sundlaugar – opnunartími lengdur á virkum dögum.
• Frisbígolfvöllur stækkaður og teigar endurbættir
• 3 nýjar tæknihjólabrautir í Ævintýragarðinum.
• Gönguskíðaspor á veturna í bænum okkar.
• Nýr aðalvöllur að Varmá með gervigrasi, flóðlýsingu og vökvunarkerfi

Sævar Birgisson

• Gervigrasvöllurinn endurgerður með vökvunarkerfi.
• Stjórnsýsluúttekt – 74 umbótatillögur, flestum lokið. Nýtt skipurit, innri endurskoðun og mælaborð.
• Forysta í stafrænum málum
• Verið er að LED-væða götulýsingu í bænum
• Álafosskvosin – þar er komin áfangastaðagreining fyrir möguleika á aukinni ferðaþjónustu og verndaráætlun fyrir byggðina
• Atvinnustefna samþykkt
• Nýtt íþróttahús við Helgafellsskóla tekið í notkun
• Leikskólinn Sumarhús opnaði í sumar, fyrir 150 börn
• Nýr búsetukjarni opnaður fyrir fatlað fólk í Helgafellshverfi
• Lóðum úthlutað fyrir einbýlishús, raðhús og fjölbýli, tæplega 300 íbúðir
• Dagdvöl fyrir aldraða fjölgun um 16 rými

Örvar

Það þurfa margir þættir að koma saman til að skapa gott samfélag. Hæfileg uppbygging á hverjum tíma, góðir skólar, þjónusta við fatlaða og eldra fólk og svo mætti auðvitað lengi telja. Þó er það alltaf mannlegi hlutinn sem skapar virkilega gott samfélag þar sem fólki líður vel. Að hlusta á hvert annað, vanda okkur í samskiptum og láta virðingu, samheldni og tillitssemi vera í öndvegi alla daga.
Inn í þetta allt þarf svo að blanda hæfilegum skammti af skynsemi þegar kemur að uppbyggingu innviða. Því auðvitað langar alla að gera margt og mikið en það er ekkert öðruvísi með sveitarfélag en heimilisreksturinn, það þarf að forgangsraða.

Bæjarfulltrúar Framsóknar
Halla Karen Kristjánsdóttir, Aldís Stefánsdóttir, Sævar Birgisson og Örvar Jóhannsson.