Huppa hefur opnað í Mosó
Á dögunum opnaði í Háholti 13 í Mosfellsbæ níunda ísbúð Huppu, en fyrsta útibú Huppu opnaði á Selfossi árið 2013.
„Við höfum lengi fundið fyrir eftirspurn eftir að opna Huppu í Mosfellsbæ. Þegar okkur bauðst svo þetta frábæra húsnæði þá slógum við til. Við erum að fá alveg ótrúlega góðar móttökur frá Mosfellingum og erum alsæl og þakklát fyrir það. Það er gaman að segja frá því að opnunardagurinn var sá stærsti frá upphafi Huppu,“ segir Telma Finnsdóttir, einn eiganda Ísbúðarinnar Huppu.
Níunda Huppubúðin
Ísbúðin Huppa er fjölskyldufyrirtæki sem hefur vaxið og dafnað frá opnun fyrstu Huppubúðarinnar. „Þegar við opnuðum fyrstu búðina þá ákváðum við að nefna hana eftir Huppu, frábærri mjólkurkú á bóndabæ ömmu og afa í fjölskyldu okkar. Við opnuðum svo fljótlega útibú í Álfheimunum í Reykjavík, ævintýrið hélt áfram og nú er svo komið að Huppa er á níu stöðum. Þar streymir einstakur Huppísinn kaldur og góður alveg eins og hann gerði í fyrstu Ísbúð Huppu á Selfossi.“
Frábært starfsfólk
„Við erum einstaklega heppin með mannauðinn hjá okkur. Þegar við auglýstum eftir starfsfólki voru viðbrögðin frábær, við héldum opinn viðtalsdag núna í október og það komu um 70 manns. Við erum komin með frábæran hóp af fólki sem við hlökkum til að vinna með og hlakkar jafnframt til að þjónusta Mosfellinga.
Takk Mosó fyrir viðtökurnar, Huppa er glöð að vera komin,“ segir Telma að lokum en opnunartími Huppu er kl. 14-22 alla virka daga og 12-23 um helgar.