Hljóðlátir leiðtogar

Þórir Hergeirsson er besti þjálfari Íslands, fyrr og síðar. Hann varð Evrópumeistari um síðustu helgi með lið sínu Noregi. Hann varð með sigrinum um helgina sigursælasti þjálfari í sögu handboltans. Það sem einkennir hann öðru fremur er hversu góð manneskja hann er. Það sýndi sig vel í viðtölum eftir úrslitaleikinn, bæði við hans eigin leikmenn og enn meir í viðtali við þjálfara danska landsliðsins, Jesper Jensen, sem nánast táraðist á blaðamannafundi eftir leik í þakkar- og kveðjuræðu sinni um Þóri.

Ég hef fylgst með Þóri lengi, horft og lesið mörg viðtöl við hann og það er akkúrat þetta sem skín í gegn. Hann skilur fólk, tengir við það og nálgast það sem manneskjur, hvort sem það eru leikmenn hans, þjálfarar eða aðrir sem hann á í samskiptum við. Hann trúir á gildi og mælir með því að þjálfarar byrji snemma að vinna með þau. Búi til einfaldar, en skýrar samskiptareglur sem ýti undir að krökkum líði vel á æfingum og hlakki til að mæta.

Draumar skipta líka máli samkvæmt Þóri, stórir draumar eru hvetjandi og við eigum ekki að draga úr þeim. Þórir ber sér lítið á brjóst sjálfur, hann lætur verkin tala og hefur öðlast miklau virðingu í íþróttaheiminum fyrir það.

Annar hljóðlátur leiðtogi sem ég hef fylgst með undanfarið er Nuno Espírito Santo, knattspyrnustjóri Nottingham Forest. Eitt af því sem hann á sameiginlegt með Þóri er að trúa á allan leikmannahópinn, ekki bara byrjunarliðið eins og sumir þjálfarar. Nuno gerir 4-5 skiptingar í hverjum leik og það á sinn þátt í að Forest er í dag í fjórða sæti í erfiðustu deildarkeppni í heimi. Við getum yfirfært þetta yfir á lífið – höldum fast í gildin okkar og förum eftir þeim, þorum að láta okkur dreyma og trúum á fólkið sem við stýrum, kennum, leiðbeinum eða vinnum með.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 19. desember 2024