Hestamennskan er lífsstíll

Rúnar Þór Guðbrandsson framkvæmdastjóri Trostan framleiðir hestavörur undir vörumerkinu Hrímnir.

Árið 2003 stofnuðu hjónin Rúnar Þór og Hulda Sóllilja fyrirtæki utan um framleiðslu á hnakknum Hrímni. Fyrirtækið hefur vaxið hratt undanfarin ár og í dag reka þau öfluga vefverslun ásamt því að vera með 100 endursöluaðila á vörum sínum í 20 löndum.
Hjónin segja það forréttindi að geta sameinað störf sín og áhugamál en líf þeirra hefur snúist meira og minna um hestamennsku undanfarna áratugi.

Rúnar Þór er fæddur í Reykjavík 8. maí 1972. Foreldrar hans eru þau Egilína S. Guðgeirsdóttir starfsmaður Fasteignasölu Mosfellsbæjar og Guðbrandur E. Þorkelsson heimilislæknir. Uppeldisfaðir er Eyjólfur Árni Rafnsson formaður Samtaka atvinnulífsins.
Rúnar Þór á sex systkini, Rafn, Reyni Inga og Róbert sammæðra og Snorra, Rannveigu og Sigríði Stellu samfeðra.

Alltaf vel tekið á móti manni
„Ég er alinn upp í Vík í Mýrdal og þar var gott að slíta barnsskónum. Að alast upp í litlu þorpi umkringdur ættingjum og stórbrotinni náttúru var frábært. Móðir mín var ung að árum þegar hún átti mig og við bjuggum hjá ömmu og afa fyrstu árin. Það voru algjör forréttindi og mótaði mig mjög mikið.
Þorpið var öðruvísi en það er í dag, maður þekkti alla og allar dyr voru opnar en nú er bærinn fullur af ferðamönnum.
Amma var dugleg að fara með mig í heimsóknir til ættingja og þegar maður fór svo sjálfur að þvælast um þá kíkti maður við hjá þessu frábæra fólki enda alltaf tekið vel á móti manni.“

Las af mælunum með afa
„Minningarnar úr æsku eru margar, eftir­minnileg eru leikskólaárin í Suður-­Vík, einu elsta húsi Víkur með dvalarheimili aldraðra á efri hæðinni, oft var kíkt í heimsókn og mikið spjallað.
Ég gleymi aldrei fyrstu launuðu vinnunni, þá var ég innan við 10 ára og var í því að skera melgresi. Dýrmætustu minning­arnar eru líklega ferðirnar með afa sem keyrði um sveitirnar til að lesa af rafmagnsmælum en hann starfaði hjá Rarik. Alls staðar var okkur vel tekið og víða var boðið inn í kaffi, þarna kynntist maður fjölmörgu áhugaverðu fólki.
Allar ferðirnar sem maður fékk að sitja í með vörubílstjórum eða Þorbergi ruslakalli voru eftirminnilegar en hann var í draumastarfinu að mínu mati á þeim tíma og svo auðvitað reglulegar heimsóknir til mömmu og pabba í vinnuna.“

Fluttu til Bandaríkjanna
Rúnar hóf skólagönguna í Víkurskóla en fjölskyldan flutti svo til Reykjavíkur og þá sótti hann nám í Hólabrekkuskóla í tvö ár. Þau fluttu í Mosfellsbæinn og þá lá leiðin í Varmárskóla og svo tók Rúnar einn vetur í Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar.
„Fjölskyldan flutti til Bandaríkjanna og þar bjuggum við í 3 ár, þar gekk ég í Junior High School. Árin þarna úti voru frábær og maður stundaði íþróttir af krafti.
Þegar ég flutti heim fór ég í Fjölbrautarskólann við Ármúla og má segja að þar hafi áhugi minn á félagsstöfum kviknað.“

Kynntust í Skagafirðinum
Á fyrstu önn Rúnars í skólanum 1989 var farið í afdrifaríkt skólaferðalag, í stóðréttir í Skagafjörð. Þar kynntist hann eiginkonu sinni, Huldu Sóllilju Aradóttur. Hún á ættir að rekja í Mosfellssveitina en afi hennar er Guðmundur frá Miðdal. Hún fetaði síðar í fótspor ömmu sinnar og afa og lærði leirlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands.
Rúnar og Hulda giftu sig í Lágafellskirkju 1999. Þau eiga saman synina Andra Dag f. 1997, Aron Mána f. 2003 og Egil Ara f. 2008.

Búðarferðin varð að ævistarfi
„Daginn sem ég lauk við síðasta prófið í framhaldsskóla kom ég við í hestabúð í Ármúlanum til að kaupa mér skeifur. Mig vantaði vinnu og spurðist fyrir um starf í leiðinni, sem ég fékk. Ég hef verið í hestavörubransanum nánast samfleytt síðan þá.
Þegar ég var 24 ára ákvað ég og konan mín að fara út í eigin rekstur og opnuðum við ásamt félaga okkar hestabúðina Reiðlist í Skeifunni en 3 árum síðar sameinuðust við tveimur öðrum í eina stóra verslun.
Í rekstrinum féll það í minn hlut að vinna að markaðsmálum og varð það til þess að við hjónin ásamt 4 ára syni okkar fluttum til Providence í Rhode Island fylki í Bandaríkjunum. Þar hóf ég nám við Johnson & Wales University og útskrifaðist með háskólagráðu í markaðsfræðum. Árin okkar þarna úti voru frábær og við eignuðumst góðar minningar og vini.“

Stofnuðu fyrirtæki
„Við fluttum heim 2003, en þá var ég ráðinn sem umdæmisstjóri VÍS á höfuðborgarsvæðinu. Árin hjá VÍS voru lærdómsrík, þar sem ég tók þátt í miklum breytingum hjá félaginu og starfaði síðasta árið sem deildarstjóri einstaklingsviðskipta ásamt því að ljúka MBA námi við Háskólann í Reykjavík.
Á meðan ég var í námi í Bandaríkjunum stofnuðum við hjónin fyrirtæki utan um framleiðslu á hnakknum Hrímni en aðsetur fyrirtækisins hefur ávallt verið í Mosfellsbæ. Fyrstu árin rákum við þetta með öðrum störfum, en haustið 2009 ákváðum við að gefa fyrirtækinu fulla athygli ásamt því að byggja okkur hús í Leirvogstungu.“

Allir geta notið góðs af
„Fyrirtækið hefur vaxið hratt síðustu ár en 2013 fluttum við dreifingarmiðstöð okkar frá Íslandi til Frankfurt í Þýskalandi. Í dag rekum við öfluga vefverslun, www.hrimnir.shop, fyrir bæði smásölu og heildverslunina ásamt því að vera með um 100 endursöluaðila á vörum okkar í 20 löndum. Árið 2015 hófum við framleiðslu á reið- og útivistarfatnaði og framleiðum nú rúmlega 200 vörur undir okkar vörumerkjum.
Fyrir ári hófum við einnig framleiðslu á vönduðu kennsluefni sem við höfum aðgengilegt á síðunni okkar. Þar sem viðskiptavinir okkar eru fyrst og fremst eigendur íslenskra hesta sem búa um allan heim þá lítum við á þetta sem gott samfélagsverkefni þar sem allir geta notið góðs af óháð staðsetningu.“

Snýst allt um hestamennskuna
„Það eru forréttindi að geta sameinað störf okkar og áhugamál, hestamennskan er lífsstíll og það snýst allt meira og minna um það hjá okkur. Við erum með litla hrossarækt og erum með hesthús á félagssvæði Harðar að Varmárbökkum. Við erum svo lánsöm að synir okkar deila áhugamálinu með okkur og við ferðumst mikið á hestum á sumrin.
Auk hestamennskunnar hef ég mikinn áhuga á fluguveiði og Laxá í Aðaldal er í miklu uppáhaldi. Félagsmálin hafa líka átt stóran þátt á undanförnum áratugum og er það gríðarlega gefandi. Sem stendur starfa ég með frábæru fólki í stjórn Hestamannafélagsins Harðar og í stjórn Íbúasamtaka Leirvogstungu svo maður getur ekki kvartað yfir því að hafa ekki nóg að gera,“ segir Rúnar brosandi er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 20. febrúar 2020
ruth@mosfellingur.is