Hef alltaf sett mér háleit markmið

Cecilía Rán Rúnarsdóttir er ein fremsta knattspyrnukona okkar Íslendinga í dag. Hún steig sín fyrstu skref á ferlinum hjá Þrótti en færði sig svo yfir til Aftureldingar sjö ára gömul. Hún var einungis 16 ára þegar hún spilaði sinn fyrsta A-landsleik með íslenska landsliðinu, þá nýútskrifuð úr grunnskóla. Í dag er hún aðalmarkvörður liðsins.
Cecilía Rán býr í Mílanó á Ítalíu þar sem hún spilar með stórliðinu Inter Milan. Frammistaða hennar hefur ekki farið fram hjá neinum þar í landi, í maí síðastliðnum var hún valin besti markmaður ítölsku deildarinnar.

Cecilía Rán fæddist í Reykjavík 26. júlí 2003. Foreldrar hennar eru þau Hrund Guðmundsdóttir bókari og Rúnar Þór Haraldsson framkvæmdastjóri.
Systkini Cecilíu eru Birta Líf f. 2008, Alex Þór f. 2010 og Sunna Marín f. 2013.

Mættum með tjald meðferðis
„Ég flyt sjö ára frá Laugardalnum í Reykjavík í Leirvogstunguna í Mosfellsbæ. Á þessum tíma var þetta mikil sveit og ekki mikið af húsum í kringum okkur.
Ég og vinir mínir í hverfinu eyddum næstum öllum okkar tíma á sparkvellinum sem var settur upp í Leirvogstungunni og ein af mínum bestu æskuminningum er þaðan. Við mættum einn daginn með tjald meðferðis og tjölduðum því á grasið fyrir utan völlinn. Spiluðum svo fótbolta allan daginn og langt fram á kvöld, gistum svo í tjaldinu og héldum svo áfram að spila næsta dag. Þetta var alveg ótrúlega gaman,“ segir Cecilía og brosir.

Byrjaði ung í meistaraflokki
„Ég gekk í Varmárskóla og mér fannst alltaf gaman í skólanum. Ég eignaðist marga góða vini sem ég er enn í góðu sambandi við í dag. Kennararnir og starfsfólk skólans voru alveg hreint yndisleg og gerðu skólagönguna enn skemmtilegri.
Ég byrjaði að æfa knattspyrnu hjá Þrótti en færði mig svo yfir til Aftureldingar þegar ég var 7 ára. Á Pæjumótinu í Vestmannaeyjum 2013 setti ég fyrst upp markmannshanskana. Það markaði ákveðin tímamót því þá gerðist eitthvað sem ég get ekki lýst betur en svo að ég tengdi betur við leikinn, síðan þá hef ég spilað í marki.
Ég var þrettán ára þegar ég byrjaði að æfa með meistaraflokki og á sumrin var maður á fullu á æfingum og á leikjum. Ég var líka að þjálfa á fótboltanámskeiðum sem mér fannst mjög gaman.“

Flutti ein síns liðs til Svíþjóðar
Cecilía Rán fór í Verzlunarskóla Íslands eftir útskrift úr gagnfræðaskóla og kláraði þar þrjár annir áður en hún flutti utan til að hefja feril sinn í atvinnumennsku í knattspyrnu. Hún skrifaði undir samning hjá Örebro og fluttist ein síns liðs til Svíþjóðar, einungis 17 ára gömul. Þar stoppaði hún stutt við þrátt fyrir að líka vel en henni bauðst að ganga til liðs við stórliðið Bayern München í Þýskalandi og þangað flutti hún 2022. Þess á milli spilar hún með íslenska landsliðinu.
„Mér leið vel í Örebro enda lífleg borg í hjarta Svíþjóðar en ég þurfti að venjast nýjum hversdagsleika án fjölskyldu og vina, þau voru sem betur fer dugleg að heimsækja mig. Ég var fljót að læra á lífið og tilveruna í borginni en ég viðurkenni alveg að þetta gat tekið á,“ segir Cecilía og brosir.

Allt var svo miklu stærra
„Það var mikil breyting að flytja frá Svíþjóð til Þýskalands. Um leið og ég mætti á fyrstu æfingu hjá Bayern þá fattaði ég hvað allt var miklu stærra. Það var alvöru dæmi að vera komin í raðir þeirra. Ég meiddist svo mjög illa á hné seint á árinu 2023 og var um tíu mánuði að ná mér, þetta var mjög erfiður tími. Vinkona mín sem einnig var að spila með liðinu stytti mér stundir, við vorum duglegar að hittast.
Sumarið 2024 skrifa ég svo undir samning við Inter Milan á Ítalíu þar sem ég bý í dag. Í maí 2025 var ég valin besti markvörður ítölsku deildarinnar sl. vetur, það var mikill heiður. Ég hef nú skrifað undir nýjan samning sem gildir til ársins 2029. Ég er mjög ánægð með að hafa skrifað undir svona langan samning, ég held að það sýni ástríðuna og þá trú sem bæði ég og klúbburinn höfum. Inter hefur náð miklum framförum að undanförnu og ég er stolt af að vera partur af því.
Ég elska Ítalíu, Mílanó er einn besti staður sem ég hef búið á og maturinn hér er á heimsmælikvarða. Veðráttan er líka dásamleg og maður er auðvitað mest úti við.“

Dugleg að ferðast og njóta lífsins
Kærasti Cecilíu til tveggja ára er Róbert Dalmar Gunnlaugsson sjómaður, þau kynntust í gegnum sameiginlega vini. Róbert fer á sjó í þrjár vikur í senn og flýgur svo út til Ítalíu þess á milli.
„Það er alltaf ótrúlega gaman hjá okkur og ég er alltaf jafn spennt að taka á móti honum þegar hann kemur til mín,“ segir Cecilía og brosir. „Við erum dugleg að ferðast og njóta lífsins, elda saman og spila. Það er líka alltaf gaman að skreppa með góðum vinum á kaffihús eða út að borða og sitja í sólinni.“

Þetta voru gríðarleg vonbrigði
Cecilía Rán var stödd á Íslandi í sumar vegna undirbúnings fyrir Evrópumót kvenna í knattspyrnu sem fram fór í Sviss. 16 þjóðir tóku þátt á mótinu en íslensku stelpurnar áttu opnunarleik gegn Finnum þann 2. júlí.
Draumurinn um að komast áfram var úti eftir leikinn gegn Sviss. Leikurinn fór af stað með krafti enda voru bæði lið staðráðin í að tryggja sér stig. Sviss komst yfir á 76. mínútu og innsiglaði svo 2-0 sigur á 90. mínútu. Völlurinn var þétt setinn enda uppselt á leikinn. Englendingar stóðu svo uppi sem sigurvegarar mótsins eftir sigur gegn Spánverjum.
„Þetta voru auðvitað gríðarleg vonbrigði, við ætluðum okkur áfram, það er bara þannig. Það var yfirlýst markmið okkar en svona er boltinn,“ segir Cecilía aðspurð um mótið. „Við erum óendanlega þakklátar fyrir stuðningsmennina okkar, það voru um 2.000 Íslendingar í stúkunni. Það gefur okkur mikið að finna fyrir þeim, það er bara ekki hægt að lýsa því með orðum.“
Ég spyr Cecilíu Rán að lokum hvar hún sjá sig eftir tíu ár? „Ég hef nú alltaf sett mér háleit markmið, ég ætla mér að verða besti markmaður í heimi.“ Og með þeim orðum kvöddumst við.