Hef alla tíð verið tengd náttúrunni

Jóhanna B. Magnúsdóttir garðyrkjufræðingur lét draum sinn rætast árið 2011 þegar hún stofnaði Ræktunar- og fræðslusetur að Dalsá í Mosfellsdal. Þar eru kjöraðstæður bæði til ræktunar og námskeiðahalds, í jaðri höfuðborgarsvæðisins, upp í sveit en þó nærri þéttbýlinu.
Markmiðið með starfsemi setursins er að aðstoða fólk við að tengjast náttúrunni, efla lífræna ræktun í heimilisgörðum og að reka gróðrarstöð með lífræna grænmetisframleiðslu.

Jóhanna Borghildur er fædd í Reykjavík 31. ágúst 1946. Foreldrar hennar eru þau Steinunn Jóhannsdóttir húsmóðir og Magnús Björgvin Sveinsson bílstjóri og bóndi. Systkini Jóhönnu eru Júlíana f. 1945, Sveinn f. 1948, Kristján Már f. 1951 og Ingibjörg f. 1958.

Góðar minningar frá Snæfellsnesi
„Fyrstu árin mín bjuggum við fjölskyldan á Laugateigi í Reykjavík en ég var einnig mikið hjá afa mínum og ömmu á Syðra Lágafelli á Snæfellsnesi. Mínar allra sterkustu æskuminningar eru þaðan, við að gefa hænunum og haninn dálítið fúllyndur, leika mér við heimalninginn eða taka þátt í heyskapnum á túninu og út á engjum.
Ég var oft send með kaffið út á engjar, þá kíkti maður ofan í mógrafirnar þó ég hafði verið vöruð við og horfði á brunnklukkurnar dýfa sér ofan í vatnið. Ég fékk svo að sitja á hestunum á leiðinni heim, milli heybagganna.
Minningin um sólmyrkvann 1954 fellur mér seint úr minni, afi hafði sett sót á gler sem við notuðum til að horfa á sólina hverfa smám saman, þetta fannst mér spennandi.”

Við systkinin tókum öll þátt
„Foreldrar mínir stofnuðu nýbýlið Norðurbrún í Reykholti í Biskupstungum. Fljótlega reistu þau tvö gróðurhús þannig að ég er því að hluta til alin upp í gróðurhúsi,” segir Jóhanna og brosir. Í kringum íbúðarhúsið byggði mamma upp glæsilegan heimilisgarð sem við systkinin tókum þátt í að vinna við.
Ég var átta ára þegar ég byrjaði í barnaskólanum í Reykholti, ég naut mín vel þar, góð kennsla og frábær félagsskapur. Við krakkarnir lékum okkur úti í frímínútum þangað til Óli Möller skólastjóri blés í flautuna sína sem merki um að nú skyldi kennsla hefjast á ný.
Lítil sundlaug var í Reykholti á þessum tíma og það leið varla sá dagur að við færum ekki að synda og leika okkur þar.
Lífið á sumrin gekk út á að sinna búskapnum á Norðurbrún, sækja kýrnar, snúa heyinu, naglhreinsa timbur og sækja mjólkurbrúsana. Ég fór síðan í Héraðsskólann á Laugarvatni og eftir útskrift hóf ég störf hjá Kaupfélagi Árnesinga á Selfossi.”

Farsæl ár í Tungunum
Jóhanna kynntist eiginmanni sínum, Birni Halblaub, árið 1963. Þau eiga þrjá syni, Magnús f. 1964, Ágúst f. 1968 og Torfa f. 1972. Barnabörnin eru níu.
„Fyrstu árin bjuggum við í Reykjavík og líf mitt snerist þá mest um það að sinna börnum og heimilinu en ég starfaði einnig á leikskólanum Drafnarborg. Við færðum okkur svo um set og fluttum austur í Biskupstungur. Þar rak maðurinn minn vélaverkstæði og ég sinnti gróðurhúsunum, ræktaði þar tómata, gúrkur og kálplöntur og einnig sumarblóm til framhaldsræktunar.
Eftir farsæl sjö ár í Tungunum fluttum við í Mosfellssveitina, það var árið 1976. Þegar drengirnir okkar voru komnir á unglingsaldur þá skildu leiðir okkar Björns.”

Hefur gert margt á lífsins leið
Jóhönnu hafði alltaf dreymt um að fara í nám og lét verða af því að fara í öldungadeild Hamrahlíðarskóla og útskrifaðist sem stúdent 1990. Sama ár útskrifaðist hún af umhverfisbraut frá Garðyrkjuskóla ríkisins en hún hefur allt tíð verið mikið tengd náttúrunni.
Jóhanna hefur gert margt á lífsins leið og hefur haft mikla ánægju af að vinna með fólki. Áhugasvið hennar er fyrst og fremst á sviði umhverfismála og ræktunar í víðum skilningi og að fræða fólk um náttúruna.
Hún var ráðin sem fyrsti umhverfisfulltrúi Ferðamálaráðs og gegndi því til ársins 1993. Hún hefur verið ötul í baráttu fyrir náttúruvernd og stofnaði ásamt félögum sínum Sjálf­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­boðaliðasamtök um náttúruvernd. Einnig starfaði hún hjá Náttúruverndarráði, Landvernd, Tilraunastöð Háskólans á Keldum og sem ferðamálafulltrúi fyrir Skaftárhrepp. Árið 2003 réðst Jóhanna til starfa hjá Garðyrkjufélagi Íslands sem framkvæmdarstjóri. Hún hefur einnig starfað við móttöku ferðamanna til landsins.
Jóhanna hefur ferðast mikið um hálendið bæði akandi og gangandi og tengst því sterkum böndum. Síðastliðna áratugi hefur hún verið að hjálpa fólki við að efla tengsl sín við náttúruna, vernda ósnortna náttúru og rækta grænmeti.

Félagsskapurinn mikils virði
„Þegar ég fór að leita að stað til að búa á í sveit, en þó nærri þéttbýlinu, þá var ég svo heppin að Dalsá í Mosfellsdal var til sölu. Núna í vor eru 32 ár síðan ég flutti á þennan draumastað.
Fyrstu árin starfaði ég annars staðar en ákvað svo að starfa eingöngu við framleiðslu grænmetis og fræðslu um matjurtarækt. Það var góð ákvörðun á sínum tíma en svo fyrir nokkrum árum hugsaði ég hvort ekki væri kominn tími á að hætta að rækta eitthvað annað en garðinn minn. Ég hef reyndar alltaf ræktað garðinn minn, sama hvar ég hef búið,” segir Jóhanna og brosir.
Niðurstaðan var að ræktun grænmetis og alls kyns jurta væri óaðskiljanlegur partur af lífi mínu. Ég ákvað því að bjóða vinkonum mínum að rækta í hluta af matjurtagarðinum mínum. Við værum þá saman að ala upp plöntur frá fræi til uppskeru og ræktum þá um leið félagsskapinn sem er mér mikils virði.”

Hefur mikla ánægju af að syngja
Það hefur alla tíð verið hluti af lífi Jóhönnu að sinna félagsstörfum. Hún hefur setið í stjórn FaMos, félags aldraðra í Mosfellsbæ, síðan 2019 og í febrúar sl. tók hún við sem formaður félagsins. Hún hefur einnig mikla ánægju af að syngja, var í Reykjalundarkórnum um tíma en er núna í Vorboðunum, kór eldri borgara í Mosfellsbæ og hefur verið formaður kórsins frá 2020. Hún hefur einnig starfað sem verkefnastjóri á vegum bæjarins.
Ég spyr Jóhönnu að lokum um önnur áhugamál en sönginn? „Hannyrðir og hvers kyns sköpun er einnig stórt áhugamál hjá mér. Ég er með vefstól í stofunni og hef verið að jurtalita garn til vefnaðar. Bókagerð hefur líka alltaf heillað mig og nú á síðustu árum hefur gerð vatnslita úr íslensku grjóti gripið mig og í framhaldi af því fór ég að læra vatnslitun.
Hversdagurinn minn snýst nú orðið um félagsstörf hér í Mosfellsbænum og að rækta garðinn minn hér á Dalsá, það er alltaf nóg um að vera,” segir Jóhanna og brosir er við kveðjumst.