Haustið

Október er kominn. Það þýðir að haustið er formlega komið. September er ekki haustmánuður eins og allir ættu nú að vita. September er síðsumarmánuður og sömuleiðis mikill afmælismánuður, en margir góðir eiga afmæli í september, eðlilega kannski, „julehyggen“ er þarna níu mánuðum áður.

Haustið er tíminn til að kafa ofan í sálina. Næra hugann, lesa góðar bækur – ég er sjálfur að lesa sjálfsævisögu Bruce Springsteen þessa dagana, hún fer virkilega vel af stað, bók sem ég hlakka til að lesa fyrir svefninn – og hlusta á góðar plötur, heilar plötur, ekki bara lag og lag. Ég er einmitt að hlusta á plöturnar hans Bruce frænda míns samhliða því að lesa bókina hans. Mjög áhugaverð tvenna – ég passa mig á því að fara ekki fram úr sjálfum mér, hlusta bara á þær plötur sem ég er búinn að lesa um.

Bruce er magnaður karakter. Hann fékk ekkert upp í hendurnar og þurfti að leggja mikið á sig til að ná frama í tónlistinni. Hann var nægjusamur, auðmjúkur og duglegur. Gafst aldrei upp og lét engan segja sér að hann væri ekki nógu góður til þess að geta lifað af tónlistinni. Eitt sumarið bjó hann á strönd í Jersey með brimbrettatöffurum. Sveif um öldurnar á daginn, æfði sig á gítarinn seinni partinn og spilaði á hinum og þessum stöðum á kvöldin. Svaf svo undir berum himni ásamt hinum brettagaurunum á nóttunni.

Það færir mér hugarró að lesa um Bruce og að hlusta á tónlistina hans samhliða. Hjálpar mér að flæða inn í haustið og gera mig kláran í að tækla lægðirnar sem eru fram undan. Ég er meiri vor og sumar maður, en hef samt lúmskt gaman af haustinu og vetrinum. Það er ákveðin upphafsorka sem fylgir þessu tímabili sem er fram undan. Orka sem fylgir okkur inn í veturinn. Njótum haustsins!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 6. október 2022