Hafdís Huld bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2025

Á sérstakri hátíðardagskrá við setningu bæjarhátíðarinnar Í túninu heima var tónlistarkonan Hafdís Huld Þrastardóttir útnefnd bæjarlistamaður Mosfellsbæjar.
Hafdís Huld Þrastardóttir er söngkona og lagahöfundur. Hún hóf feril sinn ung og hefur átt farsælan og fjölbreyttan feril sem spannar yfir þrjá áratugi.
Ferill Hafdísar hófst þegar hún var 15 ára gömul þegar hún gekk til liðs við raftónlistarsveitina GusGus, sem þá var nýtilkomin en varð síðar ein af þekktustu hljómsveitum Íslands á alþjóðlegum vettvangi. Hún tók þátt í fyrstu plötum sveitarinnar og fór í tónleikaferðir víða um heim. Þrátt fyrir ungan aldur fékk hún mikla reynslu og viðurkenningu á þessum tíma.

Þróaði sinn eigin tónlistarstíl
Eftir nokkur ár í GusGus ákvað Hafdís að einbeita sér að sólóferli og flutti til Bretlands þar sem hún stundaði nám í tónsmíðum og söng við London Collage of Creative Media. Þar þróaði hún eigin tónlistarstíl og hóf að semja lög sem áttu síðar eftir að rata á plötur hennar og annarra listamanna.
Árið 2006 gaf hún út sína fyrstu sólóplötu, Dirty Paper Cup, sem hlaut afar góðar viðtökur, meðal annars Íslensku tónlistarverðlaunin sem plata ársins í flokki popptónlistar. Platan innihélt lög á borð við Tomoko og Plastic Halo sem vöktu mikla athygli fyrir grípandi laglínur og frumlega útsetningu.
Í kjölfarið gaf Hafdís út fleiri plötur, þar á meðal Synchronised Swimmers (2009), Vögguvísur (2012), Barnavísur (2015), Dare to Dream Small (2017) og Við jólatréð (2021)
Vinsælust á streymisveitum
Platan Vögguvísur hefur notið mikilla vinsælda og seldist í yfir 20.000 eintökum. Plötunni hefur verið streymt hvað mest íslenskra platna á streymisveitunni Spotify, og lagið Dvel ég í draumahöll af sömu plötu trónir jafnan á toppinum yfir mest streymdu lög landsins. Önnur lög af sömu plötu njóta jafnframt mikillar hylli.
Hafdís Huld hefur unnið mikið með eiginmanni sínum, tónlistarmanninum Alisdair Wright, sem sér um upptökur og útsetningar margra laga hennar.

Umhverfið í Mosfellsdal hefur áhrif
Hafdís Huld er búsett í Mosfellsdal og tengist bænum sterkum böndum bæði í starfi og daglegu lífi. Umhverfið í Mosfellsdal hefur haft djúpstæð áhrif á tónlistarsköpun hennar. Platan Home var til að mynda tekin upp að miklu leyti heima hjá henni í dalnum. Hafdís hefur ítrekað talað um hversu miklu það máli skiptir fyrir hana og fjölskyldu hennar að búa í samfélagi þar sem nálægð við náttúru, fjölskylduvænt umhverfi og sköpun fara saman.