Hækkar sól um jól

Bjarki Bjarnason

Bjarki Bjarnason

Framundan eru tímamót: vetrarsólhvörf, jól og áramót á næsta leiti. Lífgjafi okkar allra hækkar á lofti, skammt undan lúrir janúar sem er nefndur eftir rómverska guðnum Janusi með andlitin tvö, annað sneri til fortíðar en hitt fram á veginn.
Hér á eftir hyggjumst við undirrituð drepa stuttlega á það sem hefur verið ofarlega á baugi síðustu misserin á vettvangi sveitarfélagsins okkar, um leið og við horfum til framtíðar.

Endurskoðun aðalskipulags
Í Mosfellsbæ er í gildi aðalskipulag fyrir árin 2011–2030. Eftir síðustu bæjarstjórnarkosningar var tekin sú ákvörðun að endurskoða skipulagið, það ferli stendur yfir og áætlað að það taki um þrjú ár. Skipulagsmál snerta daglegt líf og lífsgæði okkar allra á einn eða annan hátt og því mikilvægt að þessi endurskoðun byggi á skarpri framtíðarsýn, hún sé vel ígrunduð og markviss.

Fjármál
27. nóvember sl. var fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar samþykkt í bæjarstjórn. Í áætlun fyrir árið 2020 er gert ráð fyrir að rekstrarafgangur verði 340 m.kr. og framkvæmdakostnaður næsta árs nemi tæpum þremur milljörðum króna. Þar vega þyngst framkvæmdir við skóla-, gatna- og veitumannvirki, þau viðamestu sem sveitarfélagið hefur ráðist í til þessa. Gert er ráð fyrir hóflegri hækkun á gjaldskrám, í takti við þá stefnu sem mörkuð var í lífskjarasamningunum og leikskólagjöld munu lækka um 5% í samræmi við málefnasamning V- og D-lista sem gerður var eftir síðustu kosningar.

Bryndís Brynjarsdóttir

Bryndís Brynjarsdóttir

Skólamál – íþróttamál
Stór hluti tekna sveitarfélagsins fer í að sinna skólahaldi; síðustu árin hefur bygging hins glæsilega Helgafellsskóla vegið þar þyngst en síðastliðið sumar fóru einnig fram miklar endurbætur á húsnæði Varmárskóla.
Samkvæmt fjárhagsáætlun verður stofnaður nýsköpunar- og þróunarsjóður en hlutverk hans er að styrkja kennara til að vinna að verkefnum sem leiða til framþróunar í skólum bæjarins.
Stöðugt þarf að huga að uppbyggingu og viðhaldi íþróttamannvirkja í ört stækkandi sveitarfélagi líkt og Mosfellsbæ. Það nýjasta er fjölnota íþróttahús á Varmá sem mun gerbreyta aðstöðunni til knattspyrnuiðkunar. Haldin var opin samkeppni um nafn hússins og tóku 235 einstaklingar þátt í henni. Var það afar ánægjulegt að sjá að bæjarbúar létu sig nafngiftina varða og lögðu fram margar góðar tillögur. Niðurstaða dómnefndar var að velja nafnið Fellið en sex einstaklingar lögðu það nafn til.

Hlégarður
Menningarmál skipa veglegan sess í Mosfellsbæ og í okkar augum leikur félagsheimilið Hlégarður þar stórt hlutverk. Í málefnasamningi núverandi meirihluta er getið um stefnumótun um Hlégarð þar sem eitt höfuðmarkmiðið er að nýta húsið betur í þágu Mosfellinga. Menningar- og nýsköpunarnefnd bæjarins hefur haldið utan um þessa stefnumótun þar sem dregnar voru upp mismunandi sviðsmyndir, hvað varðar rekstrarform og nýtingu hússins.
Niðurstaðan varð sú að velja svonefnda blandaða leið, þar sem samið verður við núverandi rekstraraðila um áframhaldandi rekstur og jafnframt mun Mosfellsbær ráða viðburðastjóra sem tryggir bæjarfélaginu og bæjarbúum greiðari aðgang að húsinu. Gera þarf töluverðar breytingar á byggingunni svo hún nýtist sem best og styttist í að tillögur arkitekta þar um líti dagsins ljós.

Ný umhverfisstefna
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur samþykkt nýja umhverfisstefnu fyrir árin 2019–2030. Stefnan tekur mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og má lesa hana á heimasíðu bæjarins. Við hvetjum bæjarbúa til að kynna sér þessa metnaðarfulla stefnu og láta sig umhverfismál varða í víðustum skilningi þess orðs, minnugir þess að heimsbyggð og heimabyggð eru eitt og hið sama.
Þegar öllu er á botninn hvolft.

Vinstri-græn í Mosfellsbæ óska öllum bæjarbúum gleðilegra jóla, árs og friðar.

Bjarki Bjarnason, bæjarfulltrúi VG og forseti bæjarstjórnar.
Bryndís Brynjarsdóttir, varabæjarfulltrúi VG.