Grænn Mosfellsbær í fremstu röð
Í Mosfellsbæ hefur íbúafjölgun orðið hvað mest á meðal allra sveitarfélaga á landinu enda kostirnir við að búa í Mosfellsbæ augljósir.
Hér er gott að ala upp börn því Mosfellsbær heldur vel utan um börnin sín. Hér eru framúrskarandi leik- og grunnskólar, fjölbreytt og gott íþrótta – og tómstundastarf og síðast en ekki síst mikil tenging við náttúruna.
Fólk sem flytur í Mosó veit að hér svífur sveitarómantíkin yfir vötnum í þessu heimilislega samfélagi þar sem nær allir þekkjast. Bærinn hefur í áraraðir verið meðal þeirra sveitarfélaga sem mælast í könnunum með mesta ánægju íbúa og hefur þessi hraða íbúafjölgun ekkert dregið úr ánægjunni.
Blómstrandi mannlíf
Með þéttingu byggðar á miðbæjarsvæði og í nýjum miðbæjargarði vonumst við til þess að geta laðað til okkar veitingahús og fleiri fyrirtæki því blómstrandi mannlíf, íbúafjölgun, fjölgun fyrirtækja og bætt þjónusta haldast í hendur. Mosfellsbær er grænn bær í sókn sem vill fá til sín fyrirtæki sem veðja á græna nýsköpun og þjónustu.
Framtíðartækifærin felast í sterkri tengingu við náttúruna og er Mosfellsbær þar fremstur í flokki sveitarfélaga hvað þau tækifæri varðar. Tækifæri í sjálfbærri matvælaframleiðslu eru hér allt í kringum okkur og er draumurinn að hér verði öflugur bændamarkaður í bland við matarupplifun, jafnvel í mathöll sem enga á sér líka. Matarupplifun í bland við menningu og listir er eftirsóknarverð upplifun fyrir alla fjölskylduna.
Græna byltingin er hafin
Vitað er að tækniþróun og COVID-19 hafa breytt hugmyndum okkar um það hvar störfin eiga að vera staðsett. Í dag skiptir fjarskiptasambandið meira máli en staðsetning starfsins. Tæknibyltingin fæðir af sér nýsköpun og leiðir okkur á nýjar brautir til þess að sjá tækifæri í að nýta það sem náttúran gefur á sjálfbæran hátt.
Það er von okkar að fyrirtækjaeigendur og frumkvöðlar vilji taka þátt í að byggja upp öflugt hringrásarhagkerfi til framtíðar. Mosfellsbær er rétti staðurinn til að vinna, búa og njóta, allt á sama stað. Græna byltingin er hafin og er Mosfellsbær virkur þáttakandi í henni. Þetta styður umhverfisstefna og framtíðarsýn Mosfellsbæjar.
Komdu út að leika
Mosfellsbær og náttúran er stórt leiksvæði fyrir fólk á öllum aldri. Hér er allt til að njóta hreyfingar og öll aðstaða hin besta hvort sem fólk vil hlaupa, ganga eða synda í sundlaugum eða Hafravatni. Mosfellsbær vill verða miðja hjólreiðafólks sem hjólar frá Gróttu til Esjuróta. Við viljum bjóða til okkar hlaupurum, göngufólki og golfurum á öllum aldri til æfinga á fellum, völlum og opnum svæðum. Þetta smellpassar inn í nútímafjölskylduna því lífsstíll fólks hefur breyst mikið á fáum árum og hefur græna byltingin haft sitt að segja en einnig leit fólks að afþreyingu á tímum heimsfaraldurs.
Rafmagnsbílar, hjólastígar, góðar almenningssamgöngur ásamt styrkingu hringrásarhagkerfisins eru hluti af verndun umhverfis og eftirsóknarverður lífsstíll fyrir nútíma fólk. Mosfellsbær vill verða í forystu í þessum flokki og verða fyrsta val fólks sem kýs heilsusamlegan og nútímalegan lífsstíl. Þetta er m.a. mín framtíðarsýn og býð ég mig fram til að leiða Mosfellsbæ áfram til forystu.
Kolbrún G. Þorsteinsdóttir
Bæjarfulltrúi og frambjóðandi í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins