Gott að grípa tækifærin þegar þau gefast

Eva Magnúsdóttir framkvæmdastjóri og stofnandi Podium veitir viðskiptavinum sínum ráðgjöf sem miðar að því að styrkja stjórnendur fyrirtækja í mótun, stefnu og innleiðingu með sérstakri áherslu á sjálfbærni, markaðs- og samskiptamál.
Eva hefur umfangsmikla reynslu úr íslensku atvinnulífi, hún sat í framkvæmdastjórn Mílu til fjölda ára og gegndi stöðu forstöðumanns samskipta hjá Símanum. Hún hefur auk þess sinnt blaða- og fréttamennsku um langt skeið.

Eva fæddist í Reykjavík 8. apríl 1964. Foreldrar hennar eru þau Anna Gréta Þorbergsdóttir fyrrv. matráður hjá Norðuráli og Íslenskum aðalverktökum og Magnús Ólafsson fyrrv. fjár-og bleikjubóndi og starfsmaður Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga.
Systkini Evu eru þau Kristín f. 1962, Ólafur Hjörtur f. 1970 og Þórunn Elfa f. 1972.

Hljóp hvenær sem færi gafst
„Ég ólst upp til fimmtán ára aldurs upp undir hæsta tindi Skarðsheiðar, Heiðarhorni, á bæ sem heitir Efra-Skarð í Hvalfjarðarsveit. Það var dásamlegt að alast þar upp í nálægð við náttúruna. Á heimili mínu sem var tvíbýli voru ekki bara foreldrar mínir heldur líka amma og afi, það var því alltaf einhver heima til að aðstoða mann.
Æskuminningarnar eru margar og skemmtilegar, flestar tengjast þær hreyfingu að einhverju leyti. Ég hljóp nefnilega hvenær sem færi gafst því að ganga á jafnsléttu var alltaf svo seinlegt. Þess á milli settist maður niður og hlustaði á lækinn hjala, það var mitt jóga.
Það var gestkvæmt um helgar þegar föðursystur mínar komu að heimsækja afa og ömmu. Þær voru barnmargar og við krakkarnir lékum okkur öll saman, hlupum um fjöllin og veiddum silung í stöðuvötnum.“

Hugsa til skólans með hlýju
Eva gekk í Heiðarskóla í Hvalfjarðarsveit og Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. „Ég var eitt af þessum jákvæðu börnum sem fannst allt gaman í skólanum. Ég varð strax mjög metnaðargjörn og átti auðvelt með að læra.
Heiðarskóli var íþróttamiðaður skóli sem mér líkaði vel og svo var maður duglegur við að spila fótbolta í frímínútum. Ég hugsa alltaf með hlýju til skólans, mér kom vel saman við kennarana þó svo að ég og Sigga besta vinkona mín þættum stundum hlæja heldur of mikið í tímum,“ segir Eva og brosir.

Afi mældi fyrir hlaupabrautinni
„Á sumrin var ég líkt og önnur börn í sveit að vinna við hefðbundin sveitastörf. Það var oft kapphlaup við veðrið þegar við þurftum að koma heyinu í hús, stundum fauk það út í veður og vind þegar Skarðsheiðin sýndi klærnar.
Ég keppti í frjálsum íþróttum á mínum yngri árum, hástökki, hlaupi og langstökki. Ég æfði spretthlaup á túninu heima á milli hefðbundinna æfinga í skólanum. Afi mældi fyrir hlaupabrautinni, var með skeiðklukkuna og fylgdist með framförum mínum af miklum áhuga. Ég var þokkaleg í styttri vegalengdum, náði meira að segja silfri í 60 metrunum. Ég var dálítil keppnismanneskja í mér og ekki alltaf sátt við annað sætið.“

Flutti til Svíþjóðar
Að loknu stúdentsprófi 1984 flutti Eva til Svíþjóðar, til Lundar, og bjó þar í sex ár. Þar fór hún í háskólanám í þjóðháttafræði og leikhús- og kvikmyndafræði með sænsku í vali. Eftir að Eva flutti heim til Íslands þá sótti hún nám í hagnýtri fjölmiðlun við Háskóla Íslands og útskrifast 1992.
Eiginmaður Evu er Finnur Sigurðsson hugbúnaðarráðgjafi hjá Tegra. Dætur þeirra eru Ísabella Ýr f. 1995 og Gréta Rós f. 1998. „Okkur fjölskyldunni finnst mjög gaman að ferðast. Við höfum farið í margar góðar ferðir sem hafa verið einstaklega eftirminnilegar og skemmtilegar. Við erum líka dugleg að fara í leikhús og á tónleika, þá sérstaklega fyrir jólin.“

Mikið rosalega var þetta gaman
„Ég hef átt mörg áhugamál í gegnum tíðina og verið töluvert félagsmálatröll,“ segir Eva aðspurð um áhugamálin. „Ég byggði upp, ásamt góðu fólki, fimleikadeild Aftureldingar þegar dætur mínar voru iðkendur og var í stjórninni í níu ár. Ég hef starfað lengi í pólitík, var formaður fræðslu- og skólanefndar og skólanefndar FMOS í nokkur ár. Hef einnig tekið að mér kosningastjórn fyrir vinkonur mínar sem hafa farið í prófkjör og kosningar. Þess á milli hef ég sinnt ýmsum ábyrgðarstörfum fyrir Félag kvenna í atvinnulífinu.
Ég stunda mikla útivist og nýt þess mjög, stærsta áskorun mín í þeim efnum var þegar ég skráði mig í heilan Landvætt, 50 km gönguskíðakeppni, 60 km á fjallahjóli, 24 km fjallahlaup og 2,5 km villisund í Urriðavatni, þetta tók vissulega á en mikið rosalega var þetta gaman.“

Blaðamennskan alltaf heillað
Eftir útskrift úr HÍ hóf Eva störf sem þáttastjórnandi á Aðalstöðinni og Stjörnunni. „Það var mjög skemmtilegt að starfa á báðum þessum stöðum en þetta var frekar ótrygg vinna þar sem útvarpsstöðvarnar skiptu oft um eigendur.
Vorið 1992 hóf ég störf sem blaðamaður á DV og starfaði þar í sex ár, í ferðamálum og fréttum en mitt síðasta verk var að ritstýra helgarblaðinu. Blaðamennskan hafði heillað mig alveg frá barnæsku enda ætlaði ég mér alltaf að verða blaðamaður þegar ég yrði stór,“ segir Eva og brosir.

Þessu fylgdi mikið álag
Eftir árin á DV lá leið Evu í almannatengslin hjá Kynningu og markaði, henni var síðan boðið starf hjá Símanum þar sem hún starfaði í sjö ár, fyrst sem kynningarfulltrúi og síðar sem forstöðumaður almannatengsla.
„Á þessum tíma gekk Síminn í gegnum alvarlegt fjársvikamál, dramatísk forstjóraskipti, misheppnaða sölutilraun og eina sölu. Það fylgdi því mikið álag að taka á móti öllum þessum fréttamiðlum en starfið var mjög fjölbreytt og skemmtilegt,“ segir Eva og brosir.
„Ég skellti mér í MBA nám við HÍ og árið 2006 var mér boðið starf sem forstöðumaður heildsölu Símans. Á þessum tíma var unnið að því að skipta Símanum upp, skilja grunnnetið frá en ég fékk það starf að fara með hinu nýja fyrirtæki, fjarskiptanetinu. Netið fékk síðan nafnið Míla, þar sat ég í framkvæmdastjórn, stýrði mörkunarvinnu, sölu og þjónustumálum.“

Bjartsýn á alþjóðlegt samstarf
Árið 2015 ákvað Eva að stofna sitt eigið fyrirtæki, Podium. Hún veitir ráðgjöf til fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga á sviði stefnumótunar, breytingastjórnunar og sjálfbærni auk þess að ritstýra sjálfbærni­skýrslum. Til þess notar hún hina ýmsu staðla sem fyrirtæki hafa verið að innleiða auk innleiðingar á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
„Á þessum 10 árum sem liðin eru hefur áhugi á sjálfbærni aukist til muna og fyrirtækin komið auga á tækifærin. Áhersla á þessa þætti skilar samkeppnishæfara umhverfi, skilvirkari rekstri, auknum tekjum af nýsköpun og komið er til móts við kröfur fjárfesta.
Ég er bjartsýn á að með alþjóðlegu samstarfi, vísindum, tækni og pólitískri samstöðu verði hægt að nýta þau tækifæri sem gefast í nýsköpun í sjálfbærnimálum, svo við öll getum endað á góðum stað,“ segir Eva að lokum er við kveðjumst.