Göngum, göngum
Staðfest hefur verið með fjöldamörgum rannsóknum að regluleg hreyfing gegnir lykilhlutverki fyrir heilsu og vellíðan alla ævi.
Hreyfing eykur líkamshreysti, hreyfifærni, vellíðan og lífsgæði almennt fyrir utan það að minnka líkurnar á flestum langvinnum sjúkdómum. Auk beinna áhrifa á heilsu og líðan getur lífsstíll, sem felur í sér daglega hreyfingu, einnig skapað tækifæri til að mynda og styrkja félagsleg tengsl og haft góð áhrif á andlega líðan okkar.
Hvernig aukum við hreyfingu?
Það þarf ekki að vera flókið að auka við hreyfingu í daglegu lífi. Ein einfaldasta leiðin er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu, hjólreiðar, hlaup og almenningssamgöngur. Það besta er að ávinningurinn er ekki aðeins bundinn við líkamlega vellíðan heldur hefur regluleg hreyfing verulega jákvæð áhrif á andlega heilsu okkar. Þess utan er þetta einnig umhverfisvænn og hagkvæmur kostur til að komast á milli staða.
Göngum í skólann
Verkefninu Göngum í skólann var hleypt af stokkunum í tíunda sinn í gær, miðvikudaginn 7. september, og lýkur svo formlega með alþjóðlega Göngum í skólann deginum miðvikudaginn 5. október. Eins og segir á heimasíðu verkefnisins þá er markmið þess að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Samhliða því að fræða börnin um ávinning reglubundinnar hreyfingar gefst jafnframt tækifæri til að draga úr umferðaþunga, hraðakstri og mengun nálægt skólum. Munum að þarna erum við fullorðna fólkið mikilvægar fyrirmyndir eins og í mörgu öðru.
Fellaverkefni 2016
Nú blásum við á ný til Fellaverkefnis í samvinnu við Ferðafélag Íslands. Gengið verður á 5 tinda í Mosfellsbæ á 6 vikum frá og með 20. september nk. Við munum leggja leið okkar á Reykjaborg, Helgafell, Reykjafell, Mosfell og Grímannsfell og er nánari upplýsingar um tíma- og staðsetningar að finna í auglýsingu hér í blaðinu.
Við munum aftur vera með fellakort þannig að hver og einn getur safnað stimplum í kortið, skilað því inn í lokin og átt þannig möguleika á glæsilegum vinningum. Allir þátttakendur munu síðan að sjálfsögðu njóta ávinnings í formi betri hreysti, hreyfifærni og góðs félagsskapar.
„Vér göngum svo léttir í lundu, því lífsgleðin blasir oss við,“ kvað Freysteinn Gunnarsson um árið og ef við leggjum textann út frá hreyfingu og vellíðan má segja að þarna hafi hann einmitt hitt naglann á höfuðið. Ganga og önnur hreyfing léttir nefnilega lundina og framkallar jákvæðari sýn á lífið.
Komdu og vertu með
– allir vinna þegar þú tekur þátt!
Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur
og verkefnisstjóri Heilsueflandi
samfélags í Mosfellsbæ