Glímir við lúxusvandamál

Aron Daníel Arnalds er 23 ára uppalinn Mosfellingur sem alla tíð hefur haft mikinn áhuga á tónlist. Hann æfði á trommur í nokkur ár og nú síðustu 2-3 ár hefur hann gefið sér meiri tíma og kraft í að semja texta og lög.
„Ég finn að ég er tilbúinn með mitt sound,“ segir Aron en hann gengur undir listamannanafninu ADA.
„Ég sem texta og lög í samstarfi með „producer“ og er núna að fara gefa út mitt fyrsta lag þann 19. júlí, „Lúxus Vandamál“, í samstarfi við Yung Nigo Drippin sem er vel þekkt nafn í bransanum. Nafnið á laginu segir um hvað lagið snýst, lífstílinn og lúxusvandamálin sem fylgja honum.“
Aron Daníel leikur knattspyrnu með ÍR í Lengjudeildinni og er í námi í Háskólanum í Reykjavík.

Fullt af hugmyndum og mörg lög á lager
„Fyrsta demóið af „Lúxus Vandamál“ var gert sumarið 2023 og það vakti strax mikla eftirtekt hjá þeim sem fengu að heyra það. Svo hélt ég áfram að semja og búa til fleiri lög og alltaf var maður að bæta sig. Frá því í mars hef ég einbeitt mér að því að klára „Lúxus Vandamál“ og gera það fullkomið svo ég geti komið með sprengju inn í leikinn.
Í dag er ég með fullt af hugmyndum og á mörg lög á lager sem eru komin mislangt í sínu ferli. Þannig að ég er með efni sem ég get gefið út í framhaldinu og stefnan í dag er að gefa út EP svona „mini“ plötu seinna á árinu og langtímamarkmiðið er að gefa út stóra plötu á næsta eða þarnæsta ári.