Gleði og hreyfing í Fótboltafitness
Frænkurnar, Eygerður Helgadóttir og Bóel Kristjánsdóttir hafa báðar tekið mikinn þátt í starfi Aftureldingar í gegnum árin og hafa mikla reynslu og menntun í knattspyrnuþjálfun.
Nú gefst Mosfellingum á besta aldri tækifæri til að sækja fótboltanámskeið þeirra sér að kostnaðarlausu. Mosfellingur tók þær frænkur tali á dögunum.
Dönsk fyrirmynd
„Verkefnið hefur verið lengi í fæðingu og Valdimar Gunnarsson framkvæmdastjóri UMSK hafði mikinn áhuga á að koma þessu af stað hér á Íslandi eftir að hafa fylgst með Football Fitness vaxa og dafna í Danmörku.
Valdimar setti sig í samband við okkur og við vorum tilbúnar að skoða þessa hugmynd, okkur þótti hún spennandi. Í framhaldinu hafði hann samband við Danina og fékk frekari upplýsingar um verkefnið ásamt æfingabanka til að styðjast við.“
Samstarfsverkefni KSÍ, UMSK og Aftureldingar
„Ákveðið var, í samstarfi við UMSK, KSÍ og Aftureldingu, að fara af stað með æfingar tvisvar í viku, iðkendum að kostnaðarlausu. UMSK og KSÍ útveguðu búnað og Afturelding æfingaaðstöðu.
Æfingar hófust í byrjun mars og hafa hátt í hundrað manns mætt í heildina síðan, þrátt fyrir það hefur ekki gengið vel að ná upp reglulegri mætingu. En smátt og smátt er að myndast kjarni sem vonandi þéttist þegar á líður.“
Gleði og hreyfing með og án bolta
„Aðalmarkmið Fótboltafitness er gleði og hreyfing með og án bolta. Lagt er upp með þol, styrk, tækni og leikgleði. Það er gert í gegnum hinar ýmsu æfingar með eða án boltans.
Það sem er skemmtilegt við þetta verkefni er að allir geta mætt á æfingarnar sama hvaða grunn þeir hafa. Kannski hefur einhvern alltaf langað til að prófa fótboltaæfingu en ekki treyst sér, þá er þetta einmitt vettvangurinn.
Við höfum fengið fótboltakempur á öllum aldri á æfingar og þær hafa einnig fengið heilmikið út úr æfingunum.“
Æfingar fram á sumar
„Æfingar verða fram á sumar einu sinni í viku á þriðjudögum kl. 20:30 og er mæting við Fellið og þar verða æfingarnar áfram eins og verið hefur en þegar fer að hlýna verður farið út á gervigras eða sparkvöllinn.“
„Við bjóðum alla velkomna á æfingu í Fótboltafitnes,” sögðu þær frænkur, Bóel og Eyja að lokum.
KYNNING