Gildistími frístundaávísana og fjárhagsáætlun
Þann 6. desember síðastliðinn var fjárhagsáætlun ársins 2024 samþykkt í bæjarstjórn Mosfellsbæjar.
Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar lagði fram tvær breytingartillögur við fjárhagsáætlun. Fyrri tillagan sneri að því að ráða inn fjármálaráðgjafa fyrir skólastjórnendur og sú seinni laut að frístundaávísunum og gildistíma þeirra.
Frístundaávísanir gildi í 12 mánuði
Frístundaávísun er framlag sveitarfélagsins til að börn eigi þess kost að sækja sér íþrótta- eða tómstundaiðkun, óháð efnahag og aðstæðum foreldra og forráðamanna.
Tillagan um frístundaávísanir laut að því að reglum um ávísanirnir yrði breytt á þann veg að gildistími þeirra verði 12 mánuðir í stað níu eins og nú er. Kostnaður við tillöguna er óverulegur, þar sem gert er ráð fyrir tiltekinni fjárhæð í fjárhagsáætlun fyrir frístundaávísanir.
Markmið tillögunnar er að öll börn sitji við sama borð og eigi jöfn tækifæri til að sækja sér íþróttaþjálfun eða tómstundanámskeið allt árið um kring. Við erum með hóp barna, íslensk sem erlend, sem finna sig ekki í hefðbundnu íþrótta- eða tómstundastarfi að vetri til og standa oft félagslega höllum fæti. Við sem eigum börn sem hafa átt erfitt félagslega vitum hversu erfitt er að virkja börnin og fá þau til að prófa hin ýmsu námskeið.
Hversu mikill vanmáttur felst í því að eiga ekki vin eða vinkonu sem getur farið með á námskeið eða á æfingu. Á sumrin breytist úrval námskeiða. Þá koma fram námskeið sem geta vakið áhuga barna, en þá er það fjárhagur foreldra sem ræður því hvort barn geti sótt námskeiðin.
Athygli okkar hjá Vinum Mosfellsbæjar var vakin á öðru sjónarhorni á sumarstarf barna og það eru foreldrar með lítið bakland, oft af erlendum uppruna sem þurfa að púsla saman sumarfrísmánuðum skólanna. Þau eru mörg að taka lengra sumarfrí og þá launalaust til að vera með börnum sínum. Því myndi sá möguleiki að nýta frístundaávísun að sumri til vera viðleitni sveitarfélagsins til að foreldrar geti sinnt sínum störfum og börnin verið ánægð á sínum námskeiðum.
Þessi tillaga var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum og er ég þakklát samstarfsfólki mínu í bæjarstjórn fyrir það að gera öllum börnum kleift að sækja sér áhugaverðar frístundir allt árið um kring.
Dagný Kristinsdóttir
bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar