Gefa út fimm barnabækur fyrir jólin
Frænkurnar Ásrún Magnúsdóttir og Eva Rún Þorgeirsdóttir standa í ströngu um þessar mundir en þær skrifuðu báðar barnabækur fyrir þessi jól. Það er Bókabeitan sem gefur bækurnar út og þess má geta að þær eru allar Svansvottaðar. Frænkurnar, sem búsettar eru í Mosfellsbæ, hafa báðar gefið út barnabækur áður en segja það tilviljun að þær hafi báðar ratað inn á þennan vettvang. Blaðamaður Mosfellings, Anna Ólöf, hitti frænkurnar og fór yfir jólaútgáfuna.
Framhald af Korkusögum
Ásrún er að gefa út þrjá bækur en fyrir hefur hún gefið úr bókina Korkusögur. „Ég er sem sagt að gefa út Fleiri Korkusögur sem er sjálfstætt framhald af fyrri bókinni.
Hún fjallar um Korku sem er hress og uppátækjasöm ung stúlka sem framkvæmir það sem henni dettur í hug um leið og henni dettur það í hug. Korka er mikill dýravinur og lendir í ýmsum skemmtilegum ævintýrum ásamt ferfættum félögum,“ segir Ásrún.
Ef jólasveinarnir ættu hunda
„Hinar tvær bækurnar eru Ævintýri Munda Lunda og Hvuttasveinar. Hvuttasveinar eru ljúf ljóðabók þar sem ég ímyndaði mér hvernig hunda jólasveinarnir ættu ef þeir ættu hunda. Ég sótti innblásturinn í Jólasveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum og líkt og sveinarnir þá koma hvuttarnir einn og einn til byggða og telja niður til jóla. Þetta eru Pissa-á-staur, Geltigaur og fleiri skemmtilegir hvuttar. Það er svo vinkona mín Iðunn Arna sem myndskreytir.“
Ævintýri Munda Lunda
„Ævintýri Munda Lunda er lauslega byggð á raunverulegum atburðum en ég var með blindan lunda í minni umsjá í eitt ár. Ég á líka tvo hunda og einn kött og í sögunni ímynda ég mér hvað dýrin gætu verið að gera á meðan ég var ekki heima. Hundarnir vingast við köttinn og kötturinn reynir að veiða lundann og úr verða skemmtilegar smásögur af þessum samskiptum þeirra.
Iðunn Arna sér einnig um myndskreytinguna á Ævintýrum Munda Lunda.
Mundi vinsæll á samfélagsmiðlum
„Mundi bjó hérna í Mosó í mjög góðu yfirlæti, það má eiginlega segja að hann hafi verið samfélagsstjarna en fólk út um allan heim fylgdist með honum. Hann var með yfir 10.000 fylgjendur á Instagram og Facebook.
Ég byrjaði að skrifa þessa bók stuttu áður en hann féll frá og fann fyrir miklum áhuga frá fylgjendum og ákvað þá að gefa bókina út bæði á íslensku og ensku,“ segir Ásrún.
—
Gefur út tvær ólíkar bækur
Eva Rún er að gefa út tvær ólíkar bækur, annars vegar Stúfur hættir að vera jólasveinn og hins vegar hugleiðslubókina Ró.
Eva Rún hefur áður gefið út jógabókina Auður og gamla tréð og spennusagnaseríu um Lukku og hugmyndavélina.
„Bókin Ró er byggð á reynslu minni af því að kenna börnum jóga, slökun og hugleiðslu. Í kennslunni langaði mig alltaf að kenna út frá svona bók en ég fann aldrei bókina sem ég var að leita að þannig að ég bjó hana bara til,“ segir Eva Rún hlæjandi.
Fjölskyldubókin Ró
„Við Bergrún Íris Sævarsdóttir teiknari unnum bókina Ró saman og köllum hana fjölskyldubók því að í henni eru einfaldar æfingar fyrir bæði krakka og fullorðna um öndun, slökun og hugleiðslu. Þetta er ekkert endilega bók sem lesin er frá a-ö heldur er þetta verkfæri sem nýtist á margan hátt.
Það er eðlilegt að upplifa allan skalann af tilfinningum í lífinu og lestur bókarinnar opnar einmitt á umræðu um tilfinningar og líðan.“
Fallegar vatnslitamyndir
„Bergrún Íris myndskreytir bókina með dásamlegum vatnslitamyndum. Við ákváðum að nota myndefni úr íslenskri náttúru og unnum mikið með samspil mynda og texta. Aftast í bókinni er svo pláss til að teikna og skrifa niður hugleiðingar og líðan. Bókin er einföld, falleg og að sjálfsögðu róandi.“
Bók skrifuð út frá hljómplötu
„Bókin um Stúf er síðan fjörug saga um Stúf sem fær nóg af því að vera jólasveinn. Jólin nálgast og miklar kröfur eru gerðar til hans. Hann ákveður að stinga af til borgarinnar ásamt jólakettinum og finna sér nýtt starf. Þar lendir hann í ýmsum ævintýrum.
Þessi bók er skrifuð út frá hljómplötunni Hurðaskellir og Stúfur staðnir að verki, sem Bjartmar Guðlaugsson og pabbi minn, Þorgeir Ástvaldsson, gerðu árið 1982. Bókin er skrifuð út frá textum á plötunni. Það má því finna fjölmargar tilvísanir í lagatexta í bókinni,“ segir Eva Rún að lokum.