Gaman saman

Birna Kristín Jónsdóttir

Birna Kristín Jónsdóttir

Nú þegar þorrablótshelgin er nýafstaðin er mér þakklæti efst í huga. Fyrst og fremst til þessa frábæra hóps sem skipar Þorrablótsnefndina, þessi hópur hefur nú starfað lengi saman með valinn mann í hverju rúmi og viðburðurinn gengur eins og smurð vél.
Það er ómetanlegt að öllu leyti fyrir félag eins og Aftureldingu að hafa svo öfluga sjálfboðaliða í okkar röðum. Ég held að það sé ekki hægt að hrósa þeim nóg, sem og öðrum sjálfboðaliðum í félaginu en þorrablótið er stærsta fjáröflun barna- og unglingastarfs handknattleiks- og knattspyrnudeildar Aftureldingar.
Í öðru lagi er svona samkoma mjög mikilvæg félagslega fyrir bæjarfélag eins og Mosfellsbæ, vinnustaðir, vinahópar, foreldrahópar, stjórnir og nágrannar sameinast á borðum. Það er fundað um hvernig skal skreyta og svo er hitað upp fyrir blótið sjálft, þetta er hópefli í lagi.
Nú fer í hönd sá tími þar sem deildir Aftureldingar halda sína aðalfundi, nú er tækifæri til að bjóða sig fram í stjórnir deilda og ráða. Ég tala af eigin reynslu að þó að það sé oft mikið að gera þá er sjálfboðaliðastarfið gríðarlega gefandi og svo kynnist maður mikið af góðu fólki og innviðum félagsins, svo er auðveldara að hafa áhrif á það sem er að gerast. Mig langar að hvetja ykkur kæru félagar til að mæta á þessa aðalfundi og taka þátt, það munar um alla og margar hendur vinna létt verk. Það er mikil fjölgun í iðkendafjölda Aftureldingar á sl. ári og ætti að vera auðsótt að fá nýja foreldra með.
Fram undan eru spennandi tímar, íþróttafólkið okkar er að skara fram úr hvert á sínu sviði með þátttöku í landsliðsverkefnum. Ég er ótrúlega stolt af iðkendum okkar og fékk gleðitár í augun þegar Andri Freyr og María Guðrún voru einnig valin íþróttafólk Mosfellsbæjar. Það er heiður fyrir okkur að eiga svona flottar fyrirmyndir fyrir yngri iðkendur.
Mig langar að lokum að hvetja fólk til að kíkja inn á síðuna okkar www.afturelding.is og skoða viðburðadagatalið og skora á ykkur að mæta á kappleiki. Það er nóg pláss og það er svo hvetjandi og gaman fyrir keppnisfólkið okkar að finna stuðning okkar allra.
Áfram Afturelding!

Birna Kristín Jónsdóttir,
formaður Aftureldingar.