Fyrsti Mosfellingur ársins kom í heiminn á nýársdag
Fyrsti Mosfellingur ársins 2024 er drengur sem fæddist á Landspítalanum þann 1. janúar klukkan 22:49, hann var 3.855 gr. og 50 cm.
Drengurinn er fyrsta barn foreldra sinna sem eru þau Karina Cieslar og Piotr Cieslar sem koma frá Póllandi en hafa búið í Mosfellsbæ í tvö ár.
Fæðingin gekk vel
„Við vorum í gamlárspartýi til kl. 2 um nóttina og vöknuðum svo við að vatnið fór hjá mér kl. 6.
Fæðingin gekk mjög vel, það var vel tekið á móti okkur á Landspítalanum og mér finnst fæðingarþjónustan hér alveg dásamleg,“ segir hin nýbakaða móðir.
Elska kyrrðina og náttúruna
„Okkur líkar rosalega vel að búa hér í Mosfellsbæ, við elskum kyrrðina og náttúruna hér í kring. Við komum frá suður Póllandi og landslagið minnir okkur á heimaslóðir. Við stefnum á að flytja aftur til Póllands eftir ár til að vera nærri fjölskyldu og vinum,“ segir Piotr.
Mosfellingur óskar fjölskyldunni til hamingju með drenginn.