Halla Karen og Jón Geir í nýju ljósi.

Fyrsti áfangi lýsingar á Tungubakkahringnum vígður

Halla Karen og Jón Geir í nýju ljósi.

Jón Geir Sigurbjörnsson, formaður Hestamannafélagsins Harðar, og Halla Karen Kristjánsdóttir formaður bæjarráðs klipptu á borða á miðvikudaginn í síðustu viku og vígðu þar með fyrsta áfanga lýsingar á Tungubakkahringnum svonefnda.

Mikið öryggismál og lyftistöng fyrir alla
„Það er gleðilegt að fyrsti áfangi af lýsingu Flugvallarhringsins eða Tungubakkareiðleiðar er klár,“ segir Halla Karen Kristjánsdóttir formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar.
„Í fjárhagsáætlun 2025 settum við 25 milljónir króna í 2. áfanga í lýsingu á þessum sama hring og það er ánægjulegt að segja frá því að það verður strax farið í hönnun en verkið kemur til framkvæmda í sumar og er áætlað að því ljúki um haustið.
Svona lýsing er mikið öryggismál fyrir hestamenn og einnig mikil lyftistöng fyrir alla sem stunda hestamennsku því þá er hægt að fara í reiðtúr eða hreyfa hestana sína á hvaða tíma sem er í skammdeginu. Til hamingju!“

Lýsing á reiðleiðum í forgangi
„Reiðvegirnir eru íþróttamannvirki okkar hestamanna,“ segir Jón Geir Sigurbjörnsson formaður hestamannfélagsins Harðar.
„Hestamennskan er stunduð allt árið um kring og lýsing á okkar helstu reiðleiðum hefur verið í forgangi hjá okkur um árabil. Bæði til að auka nýtingu og ekki síst til að auka öryggi iðkenda okkar.
Við fögnum því þessum fyrsta áfanga í lýsingu á Tungubakkahringnum og hlökkum til áframhaldandi uppbyggingar.“
Með þeim Jóni Geir og Höllu Karen á myndinni er hryssan Fluga en hún ásamt vel völdum félögum úr Herði hleyptu á skeið undir ljósunum í fallegu vetrarveðri.