Framkvæmdum í Skálafelli flýtt
Fyrir dyrum stendur að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu geri með sér samkomulag um mikla uppbyggingu á skíðasvæðunum í Bláfjöllum og Skálafelli. Þetta samkomulag er gert á grundvelli framtíðarsýnar sem verkefnahópur vegna uppbyggingar skíðasvæðanna hefur markað.
Forgangsverkefni þeirrar framtíðarsýnar eru að hefja snjóframleiðslu og bæta lyftubúnað í Bláfjöllum og í Skálafelli.
Gert er ráð fyrir því að uppbyggingartímabilin verði tvö, annars vegar frá 2019-2024 með árið 2018 sem undirbúningstímabil. Seinni hluti tímabilsins tæki yfir árin 2025-2030. Í heild er gert ráð fyrir því að nýfjárfestingar á tímabilinu geti numið allt að 6 milljörðum króna eða u.þ.b. 3 milljörðum á hvoru tímabili fyrir sig.
Snjóframleiðsla og nýjar lyftur
Á fyrra tímabilinu er lagt til að áherslan verði á snjóframleiðslu og lyftubúnað og að framkvæmdum við þau verkefni verði lokið árið 2024. Í meðförum innan stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu var tekin ákvörðun um að flýta framkvæmdum við endurnýjun stólalyftu í Skálafelli um þrjú ár vegna óska Mosfellsbæjar. Þar verði sett ný lyfta sem verði 4-6 sæta, með gírun, en núverandi stólalyfta hefur eingöngu 2 sæti og er orðin úr sér gengin.
Bæjarráð Mosfellsbæjar hefur samþykkt að heimila bæjarstjóra að undirrita samning um ofangreindar framkvæmdir á tímabilinu 2019-2024 að því gefnu að ráðist verði í endurnýjun lyftu í Skálafelli eigi síðar en árið 2020.
Skíðasvæði okkar Mosfellinga
„Það er ánægjulegt að þessi metnaðarfulla framtíðarsýn fyrir skíðasvæðin tvö hafi verið mörkuð og að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafi burði til þess að ráðast í þessa mikilvægu en kostnaðarsömu vinnu við að umbylta aðstæðum til að stunda þá fjölskylduíþrótt sem skíðaíþróttin er.
Þetta er mikilvægt verkefni á sviði heilsueflingar og Skálafellið er að mínu mati lykill að því að ná árangri við að styrkja rekstur skíðasvæðanna þar sem veður og aðstæður geta verið ólík milli svæðanna tveggja og því gott að geta miðlað fólki á milli þeirra eftir aðstæðum. Þá er Skálafellið líka skíðasvæðið okkar Mosfellinga,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.