Forvarnir eru svarið
Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag. Nálægðin við náttúruna skapar umgjörð fyrir hvers konar íþróttaiðkun og útivist hvort sem það er að taka þátt í hlaupahópnum í bænum, stunda hestamennsku, fara í sundlaugarnar, ganga á Úlfarsfellið eða annað. Þátttaka í íþróttum og frístundastarfi hefur ótvírætt forvarnargildi.
Rannsóknir benda til að fyrstu 1000 dagarnir í lífi barna hafi áhrif á framtíðarheilbrigði þeirra. Því er mikilvægt að styðja við foreldra ungra barna. Framsókn ætlar að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði og leggja áherslu á styttingu vinnuvikunnar. Auk þess þarf að styðja við foreldra sem eiga við geðrænan vanda að stríða.
Endurskipuleggja þarf geðheilbrigðiskerfið og auka aðgengi að sálfræðimeðferð. Við ætlum að efla heilsugæsluna frekar þannig að þar starfi saman fleiri fagstéttir. Við ætlum einnig að niðurgreiða sálfræðiþjónustu. Ráðast þarf í þjóðarátak gegn sjálfsvígum.
Efla þarf löggæslu til að lögreglan hafi burði til þess að takast á við breyttan veruleika og geti tryggt öryggi okkar sem allra best.
Hvetja þarf til aukinnar hreyfingar með því að veita hreyfistyrk árlega. Einnig þarf að veita stuðning við uppbyggingu íþróttamannvirkja til að viðhalda og bæta enn frekar aðstöðu til íþróttaiðkunar barna og unglinga. Lækka þarf verð á ávöxtum, grænmeti og annarri matvöru sem skilgreind er sem hollustuvara.
Við þekkjum það úr störfum okkar hversu miklu máli forvarnir skipta, hvort sem þær snúa að fjölskyldunni, geðheilbrigðismálum, löggæslu eða hreyfingu og heilbrigðum lífsstíl. Við viljum setja þessi málefni fremst í forgangsröðina. Þess vegna erum við í stjórnmálum.
Willum Þór Þórsson skipar 1. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi
Kristbjörg Þórisdóttir skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi