Flug og skotfimi eiga vel saman

mosfellingurinn_bara+

Bára Einarsdóttir framkvæmdastjóri og eigandi Bílaparta ehf. er Íslands- og bikarmeistari í 50 metra liggjandi riffli.

Það er ekki hægt að segja annað en að Bára Einarsdóttir fari óhefðbundnar leiðir þegar kemur að vali á áhugamálum. Dagsdaglega starfar hún innan um bíla og bílaparta, á góðviðrisdögum skreppur hún í flugtúr á sinni eigin flugvél og þess á milli meðhöndlar hún riffla og skammbyssur.
Hún veit ekkert skemmtilegra en að skella sér í veiðitúr erlendis í góðra vina hópi og síðastliðið haust var haldið til Eistlands þar sem veiddir voru elgir og rádýr.

Bára fæddist í Hafnarfirði 4. maí 1972. Hún er dóttir hjónanna Þóru M. Sigurðardóttur fv. bankastarfsmanns og Einars D.G. Gunnlaugssonar, tækniteiknara. Systkini Báru eru þau Sonja Sól og Einar Sigurður.

Með þeim fyrstu í Grafarvoginn
„Ég bjó í Reykjavík til þriggja ára aldurs en árið 1974 flutti fjölskyldan búferlum til Hafnar í Hornarfirði þar sem við bjuggum í átta ár. Móðurafi minn og amma bjuggu á Höfn og afi rak bakaríið hjá Kaupfélagi Austur-Skaftfellinga.
Móðir mín vann við verslunarstörf og faðir minn við hin ýmsu störf. Síðustu tvö árin okkar á Höfn vann hann í Síldarsöltunarstöðinni en við byggingu nýrrar söltunar­stöðvar varð hann fyrir alvarlegu vinnuslysi sem olli því að við þurfum að flytja til Reykjavíkur.
Við fluttum í Breiðholtið og ég gekk tvo vetur í Fellaskóla. Við fluttum svo yfir í Grafarvoginn og vorum með þeim fyrstu sem fluttu þangað. Fyrsta veturinn minn þar gekk ég í Laugarnesskóla en þegar Foldaskóli var tilbúinn þá færðist ég yfir. Síðasta veturinn í gagnfræðaskólanum var öllum bekkjunum skipt upp og ég valdi að fara í Ölduselsskóla og sé ekki eftir því.“

Fórum á hestbak á Keldum
„Það var skemmtilegt að búa í Grafarvogi. Þetta var fyrst um sinn lítið samfélag og við sem bjuggum þarna vorum mjög náin.
Vinahópurinn var nú ansi oft uppátækjasamur og við vorum ekki eftirlæti kennaranna. Við fórum stundum á hestbak á hestunum hjá Tilraunastöðinni á Keldum og höfðum mikið gaman af.
Eftir grunnskóla fór ég að vinna en með skólanum hafði ég verið að vinna í Kólus­ lakkrísgerð og í Miklagarði og í fiski á sumrin.“

Fluttu fyrirtækið til Mosfellsbæjar
„Í mars 1988 kynntist ég eiginmanni mínum, Ásgeiri Jamil Allanssyni. Við Jamil eigum tvo syni, Atla fæddan 1990 og Andra fæddan 1994. Atli og kona hans Ágústa eiga einn son, Alex Jamil, sem er fæddur 2010.
Við Jamil unnum saman fyrst í sjoppu og í Bílaþjónustunni í Dugguvogi en faðir Jamils rak það fyrirtæki. Við opnuðum Bílapartasöluna við Rauðavatn í júní 1989 en fluttum svo fyrirtækið að Grænumýri í Mosfellsbæ þar sem við erum í dag. Við fjölskyldan fluttum svo hingað árið 2003 og hér finnst okkur gott að vera.
Atli og Ágústa starfa með okkur á Bíla­partasölunni en Andri Jamil er í flugvirkja­námi í Grikklandi. Fjölskyldan skiptir mig mestu máli, við erum mjög samrýmd enda vinnum við öll saman og erum góðir vinir.“

Lærði arabísku í Egyptalandi
Bára fór í Skrifstofu- og ritaraskólann, Tölvu- og viðskiptaskólann og lærði líka svæðanudd. Í 12 ár sýndi hún hunda á sýningum hjá HRFÍ og var einnig formaður Spaniel-deildarinnar.
Bára er löggildur bílasali og fór á Cabas­námskeið og plastsuðunámskeið hjá Iðunni. Hún hefur farið á nokkur tungumálanámskeið og hefur meðal annars lært arabísku. Hún lagði leið sína til Egyptalands í nokkrar vikur til að læra arabískuna betur.
Jamil keppti í torfæru í sex ár og átti það hug þeirra hjóna allan þann tíma.

Fóru til Eistlands í veiðiferð
„Það var árið 2013 sem Jónas Hafsteinsson lögreglumaður kynnti mig fyrir skotfimi hjá Skotíþróttafélagi Kópavogs. Það var ekki aftur snúið því ég kolféll fyrir þessu og byrjaði að æfa um haustið.
Ég varð Íslandsmeistari í loftskammbyssu 2014 og hef síðan þá náð nokkrum titlum og sett nokkur Íslandsmet í liðakeppni í hinum ýmsu skotgreinum. Ég var valin skotíþróttakona ársins hjá félaginu árið 2015 og 2016.
Ég varði Íslands- og bikarmeistaratitilinn minn á dögunum í 50 metra liggjandi riffli og er að sjálfsögðu ánægð með það. Í dag er ég varaformaður Skotíþróttafélagsins.
Stöllur mínar, Guðrún Hafberg og Margrét Linda, hafa líka sett nokkur Íslandsmet þetta keppnisbilið en það er gaman að segja frá því að við erum allar úr Mosfellsbæ.
Ég hef mjög gaman af því að veiða og síðast­liðið haust fórum við nokkrar vinkonur saman til Eistlands í veiðiferð. Þar hittum við fleiri konur sem voru í sama tilgangi og við.
Ég veiddi þrjú rádýr í þessari ferð og stefni á að fara aftur út í haust ásamt því að fara á gæs hér heima.“

Keyptu sér flugvél í Bandaríkjunum
„Ég fór að læra að fljúga í Flugskólanum Geirfugli árið 2015 og útskrifaðist með einkaflugmannspróf sumarið 2016. Skotfimi og flug eiga vel saman, maður er í skotfiminni inni á veturna og svo tekur flugið við á sumrin.
Við Jamil keyptum okkur flugvél frá Bandaríkjunum sl. haust en hann flýgur einnig mikið. Ég flaug á sjóflugvél í fyrsta skipti um páskana á Flórída og mun ég reyna að fara sem oftast til þess.
Það er ekkert sem jafnast á við listflug. Sigurjón Valsson fráfarandi formaður Flugklúbbs Mosfellsbæjar náði að smita mig af þessari bakteríu áður en ég tók við formennsku af honum í mars sl. og ég get sagt þér að þetta er algjör snilld.
Ég fer út í sumarið full af áhuga og ætla að reyna að fljúga sem mest og njóta sumarins og ætla jafnvel að skella mér á salsanámskeið,“ segir Bára brosandi að lokum er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 18. maí 2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs