Fjörumór

Guðjón Jensson

Þegar ég las jarðfræði í Menntaskólanum í Hamrahlíð fyrir meira en hálfri öld var lesin nýútkomið rit Þorleifs Einarssonar jarðfræðings sem bar það yfirlætislausa nafn Jarðfræði, saga bergs og lands.
Þetta rit heillaði mig og átti ég oft margar stundir með þessu merka riti löngu eftir að ég las á námsárunum mínum.

Á einum stað segir frá fyrirbærinu fjörumó og minnisstæð er mynd Sigurður Þórarinssonar af fjörumónum yst á Seltjarnarnesi móts við Gróttu. Fjörumó má rekast á nokkuð víða á Íslandi. Auk Seltjarnarness, má finna hann á Kjalarnesi, Akranesi, við Stokkseyri og á Höfn í Hornafirði.

Fjörumór er leifar mýra í landslagi sem sigið hefur vegna jarðskorpuhreyfinga á löngum tíma. Telur Þorleifur að Seltjarnarnes sem og land við innanverðan Faxaflóa hafi sigið um allt að 5 metra á undanförnum 3.000 árum (Jarðfræði Þ.E. 1968, bls. 199).

Fyrir nokkru var ég á gangi um Leirutangann sem teygir sig fram í Leirvoginn. Á stórstraumsflóði verður hann lítil eyja og efst er þar varpstaður ýmissa fuglategunda eins og tjalds. Áður minnist ég þess að kría hafi orpið þar. Nú varð ég var við að eftir stórviðri af vestri fyrr í vetur hafði orðið töluverðar breytingar á tanganum. Nokkur fet af möl hafði skolast burt af vestanverðum tanganum, efnið flust að einhverju leyti ofar á tangann og þrengt að varpstöðvum fuglanna, lagt undir sig nokkra tugi fermetra af melgresi sem þarna vex og er gott skjól fyrir fuglalífið. Þarna á tanganum vestanverðum má sjá fjörumó eins og Þorleifur getur um í jarðfræðibók sinni. Hvet ég sem flesta Mosfellinga að leggja leið sína í fjöru og skoða þetta jarðfræðifyrirbæri.

Nú vil ég taka fram að jarðfræði er fyrst og fremst áhugamál mitt sem og annað sem heyrir náttúrufræðum til. Hefi ég reynt að lesa mig til sem mest og fylgjast vel með.

Fyrir þá sem þykir saga áhugaverð þá eru fornar leifar mannvirkja yst og vestast á Blikastaðanesinu. Kristján Eldjárn þjóðminjavörður og forseti rannsakaði þetta umhverfi á sínum tíma. Birtist grein hans í Árbók fornleifafélagsins 1980 og má nálgast hana hér: https://timarit.is/files/68889713.
Því miður eru þessar minjar að verða eyðingunni að bráð og hverfa okkur sjónum ef ekkert verður að gert. Þarna hafa öldur sjávar skolað í burtu einhverjum metrum og verður það að teljast miður.
Ég hef bent umhverfisnefnd Mosfellsbæjar á þetta mál og vænti þess að það verði skoðað og tekin ákvörðun um hvernig unnt verði að bjarga því sem unnt er frá frekari eyðingu.

Guðjón Jensson
Arnartanga 43
Mosfellsbæ