Fjórir Mosfellingar taka þátt í Team Rynkeby verkefninu

Börkur, Lárus, Louisa og Jakob á hjólunum. Ragnar ásamt framkvæmdastjóri Team Rinkeby.

Team Rynkeby er góðgerðarverkefni sem hófst í Danmörku árið 2002 þegar nokkrir starfsmenn danska safaframleiðandans Rynkeby Foods ákváðu að hjóla frá Danmörku til Parísar.
Fyrirtækið var aðalstyrktaraðili ferðarinnar, en einnig fengust styrkir frá öðrum fyrirtækjum. Það gekk mjög vel að safna styrkjum, það vel að það varð afgangur og var hann gefinn deild krabbameinssjúkra barna á háskólasjúkrahúsinu í Odense. Team Rynkeby hefur síðan þá stækkað ár frá ári. Þátttakendur hjólaárið 2023-2024 voru um 2.500 hjólarar og aðstoðarfólk í 63 liðum frá 9 löndum. Ísland hefur tekið þátt frá árinu 2017.
Öll liðin hjóla til styrktar börnum með alvarlega sjúkdóma, hvert í sínu landi. Íslenska liðið safnar nú fyrir Umhyggju, félag langveikra barna. Fyrstu árin var safnað fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna (SKB) en það félag nýtur áfram stuðnings Rynkeby í gegnum Umhyggju.

Hver og einn hjólar 1.300 kílómetra
Nýtt lið er valið að hausti og búið er að velja liðið fyrir 2024-25. Íslenska liðið í ár samanstendur af yfir 40 hjólurum og 8 manna aðstoðarhóp sem kallaðir eru umhyggjuliðar.
Án umhyggjuliðanna kemst liðið ekki langt en það eru alltaf tveir bílar sem fylgja hópnum og sjá um að hafa mat og kaffi tilbúið og eins ef eitthvað kemur upp á. Liðið fer með allan mat út og eru það fyrirtæki hér heima sem hafa gefið liðinu þær vörur. Það er ómetanlegt eins og allir þeir styrkir sem fyrirtæki hafa lagt í söfnunina.
Liðsmenn greiða sjálfir allan sinn kostnað (hjól, búnað, ferðir, fatnað, gistingu o.fl.). Ekki er um keppni að ræða heldur hjólar hvert lið saman alla leið.
Íslenska liðið mun hjóla af stað 5. júlí frá Kolding í Danmörku til Parísar. Öll liðin hittast svo í París 12. júlí. Hver og einn hjólar um 1.300 km á átta dögum þannig að liðsmenn þurfa að leggja sig alla fram við æfingar yfir veturinn til að vera í stakk búnir að takast á við þetta verkefni.

Undirbúningur hafinn fyrir næsta sumar
Gaman er að segja frá því að í liðinu í fyrra voru fjórir Mosfellingar sem hjóluðu frá Danmörku til Parísar. Þetta eru þau Börkur Reykjalín Brynjarsson sem hefur tekið þátt þrisvar sinnum, Ragnar Hjörleifsson sem hefur tekið þátt tvisvar sinnum og hjónin Lárus Arnar Sölvason sem hefur tekið þátt tvisvar sinnum og Louisa Sif Mønster sem hefur tekið þátt einu sinni.
Tvö síðarnefndu ætla að taka þátt aftur í ár. Auk þeirra bættust í hópinn hjónin Úlfar Þórðarson sem ætlar að hjóla og Salóme H. Gunnarsdóttir umhyggjuliði.
Lárus tekur núna þátt í þriðja skipti og Louisa í annað skipti. Við erum sammála um að það sem drífur okkur áfram er ómetanlegur vinskapur, hvatning liðsfélaga, sameiginleg markmið og ólýsanlega góð tilfinning að láta gott af sér leiða.
Við erum með persónulega reynslu af því að vera foreldrar langveiks barns, en dóttir okkar, Júlía Rut, greindist með bráðahvítblæði árið 2017 og útskrifaðist 2020. Ferðin í sumar var mjög krefjandi vegna veðurs því af átta dögum rigndi í fimm. Það getur tekið á að hjóla langar vegalengdir í rigningu en þá er gott að rifja upp hvers vegna við erum að þessu. Við hjólum því við getum það og allt gert til þess að safna fyrir Umhyggju. Æfingar fyrir næsta tímabil eru hafnar og vinnan við að safna styrkjum komin á fullt.
32 milljónir afhentar Umhyggju
Þann 28. september síðastliðinn afhenti Team Rynkeby lið 2024 söfnunarfé til Umhyggju að upphæð 31.945.738, en þetta er stærsta einstaklingssöfnun landsins.
Við afhendinguna kom fram að söfnunarféð verður m.a. nýtt í þágu rannsókna og í almenna þjónustu sem félagið veitir langveikum börnum og aðstandendum þeirra.
Að lokum viljum við hvetja Mosfellinga og fyrirtæki í bæjarfélaginu að kynna sér verkefnið sem hægt er að gera á www.teamrynkeby.is og á samfélagsmiðlunum Facebook og Instagram.