Fjölskyldan, börn og ungmenni

Sveinn Óskar Sigurðsson

Þann 11. nóvember á nýliðnu ári var haldin opin ráðstefna í Hlégarði hér í bæ á vegum Miðflokksins í Mosfellsbæ um málefni fjölskyldunnar, barna og ungmennanna.
Fundurinn var vel sóttur þar sem 4 fyrirlesarar ræddu málefnið og sátu svo síðar fyrir svörum. Líflegar umræður og ótal fyrirspurnir bentu til þess að mikil þörf er í samfélaginu okkar að ræða þessi mikilvægu mál og vinna úr því aðgerðaráætlun sem staðið verður við.
Einn fundarmanna á þessari ráðstefnu okkar í Miðflokknum, sem var öllum opin, var kjörinn manneskja ársins 2025, þ.e. Guðmundur Fylkisson, lögreglumaður sem sérhæfir sig í að leita að týndum börnum. Í nýlegu viðtali við hann á vef mbl.is í byrjun desember 2025 kom fram að í fyrstu viku þess mánaðar höfðu 369 leitarbeiðnir borist lögreglu vegna týndra barna. Þetta er algjört met en fyrir ári voru beiðnirnar 274 fyrir allt árið 2024.
Einnig kom fram að leitað hafi verið að 93 börnum á árinu, þar af reyndust níu af þeim undir fermingaaldri. Yngsta barnið reyndist vera 11 ára, þ.e. fætt árið 2014. Að auki var þess sérstaklega getið að leitað hafi verið af 55 stúlkum, þar af 37 í fyrsta skipti og 38 drengjum, þar af 21 í fyrsta skipti. Aldrei áður hefur verið um svo margar stúlkur að ræða í hópi barna sem hlaupast á brott. Fram að þessu höfðu þær flestar verið 48, nú 55.
Börnin eru að stinga af frá heimilum sínum og úr meðferðarúrræðum þar sem þau hafa verið vistuð. Langflest þessara barna glíma við fíkni-, hegðunar eða geðræna vanda. Í einhverjum tilvikum fer þetta allt saman og líkurnar aukast að svo sé eftir því sem börnin eldast. Guðmundur hefur margítrekað bent á að það sé fokið í flest skjól ef samfélag okkar sé komið í þá stöðu að eina úrræðið sem er í boði sé að leita atbeina lögreglu. Nýlega fannst drengur á grunnskólaaldri sem leitað hafði verið að í 10 daga og ekki var það í eina skiptið á liðnu ári sem Guðmundur leitaði þessa drengs. Guðmundur hafði leitað hans í tugi skipta á nýliðnu ári og ekkert úrræði var í boði fyrir barnið. Þó svo að e.k. skaðaminnkandi úrræði væri í boði er það ekki meðferðarúrræði fyrir börn í fíknivanda. Það verður að vinna með neysluna í stað þess að láta hana viðgangast inni á meðferðarheimilum hins opinbera. Hvers vegna þurfa foreldrar á Íslandi að leita til Suður-Afríku að úrræðum fyrir börn í þessum vanda?
Þá má hér bæta við bráðri þörf fyrir NEET (ungmenni 18-29 ára án virkni, menntunar og atvinnu) skynslóðina. Þar hefur verið lokað á starfsemi Janusar endurhæfingar ehf. hvað geðrækt þessa hóps og virkniúrræði varðar. Þetta er ekki aðeins miður, þetta er sorglegt.
Þó svo að flokkar og fólk markaðssetji sig sem velunnarar barna og skipa sæti e.k. sjálfskipaðra velferðarflokka, flokka sem telja sig standa vörð um fjölskylduna, börn og ungmenni, er bara ekki að sjá að þeir stjórnamálaflokkar, sem starfað hafa á Íslandi í sveitastjórnum og á Alþingi í áratugi, hafi náð árangri í að mæta þörfum þessa fólks. Fjármagnið sem fer í skýrslugerðirnar endar sjaldan eða aldrei í virkum úrræðum, húsaskjóli og virknihvetjandi lausnum.
Gerum árið 2026 að gleðilegu ári fyrir fjölskyldur, börn og ungmenni þessa lands.

Sveinn Óskar Sigurðsson, oddviti Miðflokksins í Mosfellsbæ