Fjölmiðlafrumvarpið og svæðisfjölmiðlarnir
Ég er sannfærð um að samfélagið okkar hér í Mosfellsbæ er ríkara vegna bæjarblaðsins okkar, Mosfellings.
Mosfellingur færir okkur fréttir úr nærsamfélaginu, fréttir sem alla jafna birtast síður í landsblöðunum, og í gegnum Mosfelling geta sveitarfélagið, stofnanir og fyrirtæki í bænum komið til okkar upplýsingum og við opinberað skoðanir okkar um sameiginleg málefni, t.d. með aðsendum greinum. Bæjarbúar virðast vera þakklátir fyrir bæjarblaðið og um 90% íbúa lesa það. Blaðið er samfélagslega mikilvægt.
Allt kostar þetta sitt og rekstrarumhverfi fjölmiðla hefur verið erfitt í áranna rás. Því hefur menntamálaráðherra lagt fram frumvarp um ríkisstuðning til handa einkareknum fjölmiðlum til efla þá og vernda lýðræðishlutverkið sem þeir gegna. Frumvarpið gerir ráð fyrir styrkjum sem numið geta 18% af kostnaði viðkomandi fjölmiðils við öflun og miðlun frétta, fréttatengds efnis og umfjöllun um samfélagsleg málefni. Gert er ráð fyrir allt að 400 milljónum af ríkisfé á ári hverju vegna þessa stuðnings.
Málið er umdeilt, eðlilega, enda á aldrei að vera sjálfsagt mál að stofna til ríkisútgjalda. Ég tel að hlutverk hins opinbera sé fyrst og fremst að búa til einfalt og gott rekstrarumhverfi fyrir fyrirtæki fremur en að grípa til sértækra aðgerða fyrir einstaka atvinnugreinar. Slíkar aðgerðir þarf að rökstyðja vel, þær þurfa að hafa skýran tilgang og mega ekki valda óæskilegum áhrifum á markaðnum. Hið opinbera verður hins vegar að bregðast við markaðsbresti og það er ljóst að markaðsbrestur er til staðar á íslenskum fjölmiðlamarkaði.
Markaðsbresturinn er einna helst tilkominn af tveimur ástæðum. Annars vegar vegna þess að ríkisrekni fjölmiðillinn RÚV keppir við frjálsa fjölmiðla um auglýsingatekjur og hins vegar að ríkur hluti af fjölmiðlaneyslu nútímafólks er í gegnum samfélagsmiðla. Þessir samfélagsmiðlar, hvort sem er YouTube, Facebook, Instagram eða aðrir, keppa við íslenska fjölmiðla um auglýsingatekjur en búa ekki við sama rekstrarumhverfi, sömu skatta og skyldur og þeir íslensku.
Með lagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir Alþingi er stigið ákveðið skref í að viðurkenna mikilvægi fjölmiðla fyrir lýðræðið í landinu. Fjölmiðlar hafa upplýsingahlutverk og eru mikilvægir fyrir tjáningarfrelsi fólks. Ég hygg að allir geti verið sammála um að nauðsynlegt sé að laga og eða bregðast við þeim bresti sem er á fjölmiðlamarkaði. En lög um ríkisstuðning ein og sér geta ekki verið meðalið. Það hlýtur að vera nauðsynlegt samhliða að taka RÚV af auglýsingamarkaði, auk þess sem ástæða er til að skoða hvort mögulegt sé að jafna rekstrarskilyrði íslenskra fjölmiðla og erlendra samfélagsmiðla þegar kemur að auglýsingasölu.
Minni fjölmiðlar, héraðsfréttablöð og bæjarblöð eins og Mosfellingur hafa bent á galla í frumvarpinu þar sem krafa um árlega útgáfu 48 tölublaða að lágmarki er skilyrði fyrir stuðningi. Við þessu verður að bregðast verði frumvarpið að lögum. Enda betur heima setið en af stað farið verði lögin til þess að rugla enn frekar samkeppnisstöðuna á fjölmiðlamarkaði.
Illfært er að færa rök fyrir því að fjölmiðlar eins og Morgunblaðið, Fréttablaðið, Kjarninn eða Stundin séu samfélagslega mikilvægari fyrir íbúa í Mosfellsbæ og eigi því frekar rétt á stuðningi frá skattgreiðendum heldur en sjálft bæjarblaðið Mosfellingur.
Bryndís Haraldsdóttir,
þingmaður Sjálfstæðisflokksins