Fjölmennt á foreldrafundi
Opinn fundur með foreldrum og forsjáraðilum elstu bekkja grunnskóla var haldinn á þriðjudaginn. Fundurinn var mjög vel sóttur en hátt í 300 foreldrar fylltu Hlégarð.
Mosfellsbær boðaði til fundarins með foreldrum í Mosfellsbæ, starfsfólki Fræðslu- og frístundasviðs og Velferðarsviðs ásamt Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og öðrum góðum gestum.
Erindi á dagskrá voru m.a. frá Kára Sigurðssyni frá Flotanum, samfélagslögreglunum Elísabetu og Alexander og Guðrúnu Helgadóttur frá Bólinu. Regína Ásvaldsdóttir tók á móti gestum og Ólafía Dögg stýrði umræðum.
„Heilmikill efniviður safnaðist saman eftir þennan fund sem hægt verður að nýta í aðgerðaáætlun bæjarins í fyrirbyggjandi starfi með börnum og ungmennum. Við erum þakklát fyrir frábæra mætingu og umræðu,“ sagði Regína bæjarstjóri að loknum fundi.