Fjölbreytt og skemmtilegt starf í Rótarýklúbbi Mosfellssveitar

Starf Rótarýklúbbs Mosfellssveitar hefur verið einstaklega fjölbreytt og áhugavert í haust.
Fyrsti fundur starfsársins var haldinn í Rótarýlundinum við Skarhólabraut þar sem Rótarýklúbburinn hóf skógrækt 1991 og nú er lundurinn orðinn útivistarpardís sem er opin öllum.
Marteinn Magnússon rótarýfélagi var heiðraður með Paul Harris orðu fyrir störf sín fyrir klúbbinn og Rótarý. Orðan er veitt fyrir framúrskarandi starf og þjónustu í anda Rótarý. Óskar Örn Ágústsson forseti klúbbsins afhenti Marteini orðuna og fór yfir störf hans fyrir Rótarýhreyfinguna.

Elísabet verður umdæmisstjóri
Félagar úr Rótarýklúbbi Mosfellssveitar fjölmenntu á Umdæmisþing Rótarý í Garðabæ og tóku virkan þátt í starfi þingsins.
Umdæmisþing er í raun aðalfundur Rótarýhreyfingarinnar og um leið árshátíð þar sem félagar alls staðar af landinu koma saman og deila reynslu og þekkingu og gleðjast saman.
Elísabet S. Ólafsdóttir verðandi umdæmisstjóri 2026–2027 bauð til næsta umdæmisþings Rótarýhreyfingarinnar sem verður í Mosfellsbæ í október 2026. Þar munu Rótarýfélagar hvaðanæva af á landinu fjölmenna og eiga saman fróðlega og skemmtilega helgi.