Fjölbreytileikinn

Ég og einn góður erum á þeirri gefandi vegferð að prófa allar íþróttir sem stundaðir eru skipulega í Mosfellsbæ. Við verðum í þessu eitthvað fram yfir áramót. Það eru nefnilega svo margar íþróttir sem hægt er að stunda í Mosó. Og það bætist í flóruna. Mér finnst þetta frábært. Sumir finna sig best í hópíþróttum, aðrir í einstaklings­íþróttum. Sumir vilja hefðbundnar íþróttir, aðrir íþróttir sem eru meira á jaðrinum. Sumir vilja æfa inni, aðrir úti í náttúrunni. Og svo framvegis. Það sem hentar einum, hentar ekki endilega öðrum.

Út frá lýðheilsusjónarmiði er best þegar börn og unglingar eru hvött og fá tækifæri til þess að prófa allar mögulegar og ómögulegar íþróttir. Þá eru mestar líkur á að þau finni þá hreyfingu sem þeim finnst skemmtilegust og eru líklegust til að stunda reglulega. Það sama gildir um okkur sem eru fullorðin.

Það er ómögulegt að vita hvort maður hefur gaman af íþrótt án þess að prófa hana. Og það er aldrei of seint að mæta á æfingu. Ég er 55 ára, minnir mig, ég pæli eiginlega aldrei í því hvað ég er gamall, og ein af ástæðunum fyrir því að við Hilmar lögðum af stað í að prófa allar íþróttir í bænum var að sýna í verki að það er aldrei of seint að prófa eitthvað nýtt. Það er í langflestum, ef ekki öllum, íþróttum hægt að finna leið til þess að æfa á þeim forsendum sem henta manni best.

Fjölbreytileikinn er líka bestur út frá afrekssjónarmiði. Þeir sem æfa fleiri en eina íþrótt langt fram á unglingsárin verða betri alhliða íþróttamenn og eru líklegri til þess að ná lengra í þeirri íþrótt sem þeir síðan velja. Hvað svo næst? Hver veit? Ringó með eldri borgurum, útreiðar með hestamannafélaginu Herði eða blak í Aftureldingu? Fylgist með á Instagramsíðu Mosfellings, ÍþróttaMosó!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 28. nóvember 2024