Fjárfest í framtíðinni?

Ég skrapp upp á Akranes á laugardaginn. Afturelding hefði getað bjargað sér frá falli úr Bestu deildinni þann dag en fótboltaguðirnir voru ekki með okkur í liði og fall í næstefstu deild er staðreynd. Það þarf yfirleitt nokkrar tilraunir til að komast á toppinn. Víkingur, Breiðablik og Stjarnan hafa ekki alltaf verið á toppnum. Staða þeirra í íslenskum fótbolta í dag byggir á margra ára þrautseigju, vilja, samvinnu og dugnaði. Ef við í Mosfellsbæ viljum komast í þennan góða félagsskap, kvenna– og karlamegin, þurfum við að gera það sama. Halda áfram, bæta við á öllum vígstöðvum, vinna saman og þora að hugsa hátt.

Aðstaða skiptir máli, ekki bara fyrir fótboltann, heldur allar íþróttir og hreyfingu. Góð aðstaða hvetur fólk til dáða, fjallahjólabrautirnar í Ævintýragarðinum eru lítið en mikilvægt dæmi um það. Brautirnar hafa verið mikið notaðar af börnum og unglingum frá opnun og iðkendum fjölgar stöðugt í hjóladeild Aftureldingar.

Hver króna sem sett er í íþróttastarf skilar sér margfalt til baka. Mosfellingurinn Hilmar Ásgeirsson komst að því í BS ritgerð sinni í hagfræði fyrr á árinu að hver króna sem hið opinbera setur í barna- og unglingastarf skilar sér að minnsta kosti tvöfalt til baka fyrir samfélagið vegna þess að það eru minni líkur á lífsstílstengdum sjúkdómum hjá þeim sem æfa reglulega. Ef félagslegi þátturinn er líka tekinn inn í myndina þá aukast margfeldisáhrifin. Sport England gaf út skýrslu árið 2024 sem metur áhrifin fjórföld. Samkvæmt skýrslunni skilar fjárfesting í aðstöðu og stuðningi við alla aldurshópa fjórfalt til baka í samfélagslegum ábata og stórminnkar álagið á heilbrigðis- og velferðarkerfið.

Skagamenn vígðu nýja íþróttahöll á laugardaginn. Glæsileg keppnishöll í fullri stærð með áhorfendaaðstöðu fyrir innanhúsíþróttir sem á daginn þjónar skólum bæjarins. Þessi fjárfesting á alveg örugglega eftir að skila sér margfalt til baka, fyrir samfélagið allt.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 30. október 2025