FemMos hlýtur jafnréttis­viðurkenningu Mosfellsbæajr

jafnréttis

Jafnréttisdagur Mosfellsbæjar var haldinn þann 18. september í sal Framhaldsskólans í Mosfellsbæ. Yfirskrift dagsins að þessu sinni var „Mosfellsbær – Heilsueflandi samfélag gegn ofbeldi“.
Fjallað var um ofbeldi og birtingarmyndir þess í víðu samhengi. Að umræðu dagsins komu aðilar sem unnið hafa með einum eða öðrum hætti að því að sporna gegn ofbeldi og að opna á umræðuna um málefnið.

Heilsueflandi samfélag gegn ofbeldi
Þorbjörg I. Jónsdóttir hæstaréttarlögmaður fjallaði um birtingarmyndir ofbeldis og hvernig þær eru ávallt að þróast og breytast í samræmi við breytingar í samfélaginu. Þá lýsti hún reynslu brotaþola frá sjónarhóli þeirra sem hún hefur sinnt réttargæslu fyrir sem lögmaður.
Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, fór yfir áherslur málaflokka sem tengjast ofbeldi sem lögreglan hefur unnið með frá árinu 2014. Þar vakti sérstaka athygli sú mikla aukning í fjölda mála þar sem tilkynnt er um ofbeldi til lögreglunnar á þessu tímabili.
Einnig voru flutt erindi þar sem starfsemi Stígamóta, Kvennaathvarfsins og Bjarkarhlíðar var kynnt, en allir þessir staðir eru athvarf fyrir þá sem hafa upplifað ofbeldi og gegna þeir lykilatriði í að veita þolendum stuðning.

Unnið að því að jafna rétt kynjanna
Jafnréttisviðurkenningu Mosfellsbæjar árið 2017 hlaut FemMos; Femínistafélag Framhaldsskólans í Mosfellsbæ. FemMos hefur unnið markvisst að því að jafna rétt kynjanna með því að sýna frumkvæði og kveikja umræðu tengda kynbundnu ofbeldi, kynjamismunun og að vekja máls og auka fræðslu í málaflokknum.
Félagið stóð fyrir fjölmörgum áhugaverðum viðburðum, meðal annars má nefna söfnun til styrktar Stígamótum undir yfirskriftinni „Ég er á móti kynferðisofbeldi“.
Haldin voru reglubundin kaffihúsakvöld þar sem kynjafræðikennsla, kynjakvóti, kynbundið ofbeldi og kynjamismunun voru rædd. Ennfremur stóð FemMos fyrir jafnréttisviku þar sem boðið var upp á ýmsa fræðslu og umræðuhópa um jafnrétti í víðum skilningi.
Með viðurkenningunni vill Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar hvetja íbúa og starfsmenn Mosfellsbæjar til að fylgja góðu fordæmi FemMos í von um að fylgja eftir vitundarvakningu og auka umræðu um jafnrétti kynjanna.