Fasteignagjöld í Mosfellsbæ

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Fasteignagjöld eru reiknuð sem hluti af fasteignamati hverrar eignar. Fasteignamatið tekur mið af verðmati húss og lóðar og eru forsendur fasteignamats meðal annars flatarmál eignar, staðsetning, aldur og ástand eignar og tölfæðileg gögn um kaupsamninga. Árlega er fasteignamatið endurmetið.
Fasteignamat íbúða á höfuðborgarsvæðinu hækkaði á milli áranna 2023 og 2024 um 13,% og á milli áranna 2024 og 2025 um 2,1%. Hér er um meðal­tals­hækkun að ræða en hækkun fasteignamats sérbýla, fjölbýla og atvinnuhúsnæðis getur verið mjög ólík á milli ára meðal annars vegna framboðs og eftirspurnar eigna.
Fasteignaskattur, lóðaleiga, sorphirðugjald og gjald vegna endurvinnslustöðva eru fasteignagjöld. Álagning fasteignagjalda er ákveðin af hverju sveitarfélagi og eru þau stór hluti tekna sveitarfélaga.

Fasteignaskattur á íbúarhúsnæði í Mosfellsbæ
Á höfuðborgarsvæðinu er Mosfellsbær meðal þeirra sveitarfélaga sem eru með hæstan fasteignaskatt á íbúðarhúsnæði árið 2025. Að undanförnu hefur borið mikið af ábendingum og kvörtunum íbúa Mosfellsbæjar um hækkandi fasteignagjöld.
Umræðan hefur t.d. verið áberandi á íbúasíðum Mosfellsbæjar á facebook. Þessi umræða á rétt á sér því alger stefnubreyting hefur átt sér stað hvað varðar þennan skatt síðan nýr meirihluti tók við fyrir bráðum þremur árum

Helga Jóhannesdóttir

Raunhækkun fasteignaskatts staðreynd
Í tíð fyrri meirihluta var sú venja viðhöfð að fasteignaskattsprósenta var aðlöguð fyrir hækkun á fasteignamati og verðlagi þannig að aldrei yrði um raunhækkun fasteignaskatts að ræða miðað við þróun verðlags.
Þetta þýddi nær undantekningarlaust að við hverja fjárhagsáætlunargerð lækkuðu álagningahlutföll fasteignagjalda þar sem fasteignamatið hafði hækkað umfram verðlagsbreytingar.
Eftir að nýr meirihluti tók við árið 2022 hefur þessi venja verið aflögð. Strax við fyrstu fjárhagsáætlun nýs meirihluta fyrir árið 2023 varð veruleg raunhækkun fasteignagjalda í bænum.
Þetta þýddi að raunhækkun fasteignaskatts var milli 15 og 16% sem var gríðarlega mikið og stórt högg fyrir mosfellsk heimili. Síðan þá hefur þessi þróun haldið áfram og m.a. hækkaði álagningarhlutfall fasteignaskatt í fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 með tilheyrandi raunhækkun fasteignagjalda meðan flest sveitarfélög lækkuðu hlutfallið.
Önnur gjöld hafa líka hækkað mikið og hefur t.d. sorpuhirðugjald og rekstur grenndar- og söfnunarstöðva hækkað um 73% frá árinu 2022. Til samanburðar hefur almennt verðlag hækkað um 30% á sama tímabili.

Samanburður við önnur sveitarfélög
Ef borin eru saman álagningarhlutföll fasteignaskatts sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu kemur í ljós að Mosfellsbær er þar í hæstu hæðum, aðeins Hafnarfjörður hefur hærra álagningarhlutfall. Meira að segja Reykjavík hefur mun lægra hlutfall en Mosfellsbær.

Skattar eru pólitískar ákvarðanir
Breyting álagningarhlutfalla eins og fasteignagjalda eru pólitískar ákvarðanir þeirra sem eru við stjórnvölinn hverju sinni.
Meirihlutinn í Mosfellsbæ virðist standa fyrir hærri skattlagningu á íbúa meðan við sjálfstæðismenn hér í Mosfellsbæ stöndum hins vegar fyrir hið gagnstæða.
Ljóst má vera að aðferðafræði núverandi meirihluta við ákvörðun álagningahlutfalla fasteignagjalda er önnur en hún var í tíð fyrri meirihluta.

Rúnar Bragi Guðlaugsson bæjarfulltrúi
Helga Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi