Fasteignagjöld – fasteignaskattur og þjónusta

Anna Sigríður Guðnadóttir

Tekjustofnar sveitarfélaga til að standa undir kostnaði við þjónustu við íbúana eru þrír; útsvar sem greitt er af launatekjum einstaklinga, fasteignaskattur sem greiddur er í hlutfalli við fasteignamat í sveitarfélaginu og að síðustu framlög úr Jöfnunarsjóði en þær greiðslur eru til að standa undir vissum sérgreindum verkefnum. Tekjustofnar sveitarfélaga eru ákvarðaðir í lögum frá Alþingi.
Vert er að geta þess að sveitarfélög fá engar tekjur vegna arðgreiðslna úr einkahlutafélögum eða af fjármagnstekjum íbúa. Gjöld vegna fráveitu, vatnsveitu og sorphirðu, sem eru hluti fasteignagjalda, standa undir kostnaði við að veita þá þjónustu samkvæmt lögum í landinu.
Þjónusta sveitarfélags er afar mikilvæg fyrir íbúa hvers sveitarfélags, en þjónusta kostar. Góð þjónusta kostar meira. Þjónusta Mosfellsbæjar er fjölbreytt, margvísleg og góð. Sveitarfélagið rekur grunnskóla og leikskóla, það rekur sundlaugar og íþróttamannvirki. Sveitarfélagið rekur einnig fjölmarga búsetukjarna fyrir fatlað fólk. Þá rekur sveitarfélagið bókasafn, listasal og tónlistarskóla og styrkir margvíslega menningarstarfsemi. Bærinn rekur Hlégarð og Brúarland þar sem fjölbreytt félagsstarfsemi blómstrar. Bærinn sinnir snjómokstri og heldur úti vinnuskóla, frístund og félagsmiðstöðvum, greiðir frístundastyrki til ungra sem aldinna og framlög til íþróttastarfsemi. Svona mætti áfram telja.

Fasteignaskattar
Álagningarseðlar vegna fasteignagjalda 2025 bárust íbúum í liðinni viku. Meðalhækkun fasteignaskatts frá fyrra ári fylgir hækkun verðlags eins og verið hefur í Mosfellsbæ um árabil. Fasteignaskattur byggir á fasteignamati sem er það gangverð sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun áætlar að eignin hefði haft í kaupum og sölu í febrúarmánuði árið á undan. Hækkun fasteignaskatts getur verið eitthvað hærri í hverfum/götum þar sem söluverð eigna hefur verið yfir meðaltali.
Í Mosfellsbæ er hlutfall fasteignaskatts á íbúðahúsnæði 0,20% sem er með því lægsta á landinu. Reyndar er það svo að frá árinu 2014 til yfirstandandi árs hefur fasteignaskattur íbúðahúsnæðis ekki verið undir 0,20% nema síðastliðin tvö ár. Annars vegar árið 2023 þegar hann var 0,195% og hins vegar í fyrra þegar hann var 0,19%. Hæst var hlutfallið árin 2014-2016 þegar það var 0,265%.

Fasteignaskattar og börn
Mosfellsbær hefur um langa hríð lagt áherslu á þjónustu við barnafjölskyldur og börnin sjálf. Barnafjölskyldur eru yfirleitt á þeim stað í lífinu að foreldrar eru að hefja starfsferil, að koma sér þaki yfir höfuðið samtímis því að ala upp börn sem við vitum flest að er ærið verkefni og kostnaðarsamt. Í Mosfellsbæ hefur verið lögð áhersla á að efla velferð barnafjölskyldna eftir megni og eru niðurgreiðslur gjalda vegna þjónustu við börn ein megin aðferðin sem beitt er.
Ég læt hér fylgja með mynd úr greinargerð með fjárhagsáætlun 2025 (aðgengileg á mos.is) sem sýnir samanburð á útgjöldum tveggja barna fjölskyldna á höfuðborgarsvæðinu sem búa í 100 m2 íbúð í fjölbýli, vegna fasteignagjalda og þjónustu leikskóla og/eða frístundar.
Á þessari mynd má glöggt sjá að Mosfellsbær heldur vel utan um börnin sín. Ég treysti mér til að fullyrða að fasteignasköttunum okkar sé vel varið þegar kemur að þjónustu Mosfellsbæjar og forgangsröðunin skýr.

Anna Sigríður Guðnadóttir,
bæjarfulltrúi Samfylkingar