Enn ein breyting á deiliskipulagi í Helgafellshverfi
Á síðasta fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar samþykkti meirihluti nefndarinnar breytingu á deiliskipulagi lóðar við Uglugötu.
Breytingin felur í sér að í stað þess að ekið sé að húsunum við Uglugötu 14-20 frá Uglugötu sjálfri, á nú að aka að húsunum í gegnum botnlanga frá Vefarastræti fram hjá bílastæðum og aðkomu að bílakjallara þess húss. En af hverju?
Jú, vegna þess að byggingaraðilinn gerði mistök þegar hann lagði aðkomu að húsunum við Uglugötu sem leiddi til þess að halli frá innkeyrslunni að húsunum nr. 14-20 varð allt of mikill og aðkoman Uglugötumegin þar með ófær. Í stað þess að gera byggingaraðilanum að bæta úr þessum mistökum sínum var ráðist í það að leysa málið með því að gera nágrönnunum við Vefarastræti 8-14 að þola breytingu á sínu deiliskipulagi (deiliskipulag 1. áfanga Helgafellshverfis) í stað þess að deiliskipulagi fyrir Uglugötuna (deiliskipulag 2. áfanga Helgafellshverfis) væri haldið til streitu og byggingaraðilanum gert að laga mistök sín.
Undirritaður fulltrúi L-lista Vina Mosfellsbæjar ásamt fulltrúa M-lista Miðflokksins í skipulagsnefnd bókuðu eftirfarandi við afgreiðslu málsins í skipulagsnefnd.
Bókun fulltrúa L-lista og M-lista:
Undirritaðir fulltrúar í skipulagsnefnd (umferðarnefnd) sitja hjá við afgreiðslu þessa máls og vísa allri ábyrgð á uppkominni stöðu á byggingaraðila að Uglugötu 6-20. Það hefur verið ljóst í málinu frá upphafi að það var handvömm byggingaraðila sem leiddi til þess að aðkoma að Uglugötu 14-20 varð erfið sökum mikils hæðarmunar milli Uglugötu 14-20 og Uglugötu 6-12. Það hefur því allan tímann verið hans að leiðrétta þau mistök og ósanngjarnt að leysa þann vanda með því að ganga á skipulagsleg réttindi íbúa við Vefarastræti 8-14.
Það er afstaða Vina Mosfellsbæjar að breytingar á deiliskipulagi eigi ekki að gera nema að vel ígrunduðu máli. Við deiliskipulagsbreytingar eigi ekki bara að líta til hagsmuna þess sem óskar eftir breytingunni heldur eigi einnig að líta til þess hvort hagsmunir séu af breytingunni fyrir aðra íbúa/hagsmunaaðila sem eiga að lifa með breytingunni, hagsmunir næstu nágranna, götunnar, hverfisins, samfélagsins alls.
Stefán Ómar Jónsson
bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar.