Endurvekja Sönginn í Mosó í Hlégarði

Stefnir í Hlégarði á árum áður.

Karlakórinn Stefnir hóf vetrarstarfið um miðjan september og eru í honum 40 starfandi félagar og nokkur nýliðun hefur verið eftir Covid-faraldurinn.
Stjórnandi er Keith Reed sem upprunninn er í hinni stóru Ameríku en hefur starfað á Íslandi um allmörg ár, kvæntur íslenskri konu og á uppkomin börn. Meðal þeirra er sonur sem líka er söngfugl og fengu gestir á vortónleikum sl. vor að kynnast honum þar sem hann reyndi, ásamt fleirum, að fylla skarð Gretu Salóme sem forfallaðist. Án efa verður reynt aftur að efna til samstarfs við Gretu við gott tækifæri í náinni framtíð.

Gamalgróinn kór stofnaður 1980
Stefnir æfir í Harðarbóli, félagsheimili hestamannafélagsins Harðar, á þriðjudagskvöldum kl. 19 en að auki eru tveir langir æfingalaugardagar yfir veturinn.
„Við höfum verið eindregnir í því að halda þessum gamla kór á lífi í gegnum áskoranir síðustu ára og flestir sammála um mikilvægi þess að halda í það fjölbreytta samfélag karlakóra sem verið hefur við lýði hérlendis undanfarna áratugi. Nýir félagar eru ávallt velkomnir.
Nú fer að líða að fyrstu uppákomu Stefnis á þessu starfsári, en þar erum við að endurvekja það sem við kölluðum „Sönginn í Mosó“ og verður hann í Hlégarði laugardaginn 2. nóvember kl. 16:00. Enginn aðgangseyrir er að tónleikunum en í boði verða léttar veitingar í hléi. Við höfum jafnan fengið til okkar góða gesti á þennan viðburð og að þessu sinni ætlar Álafosskórinn að heiðra okkur með nærveru sinni.
Það þekkja margir þennan gamalgróna kór sem stofnaður var árið 1980 af starfsmönnum ullarvinnslunnar að Álafossi en stjórnandi hans í dag er Örlygur Atli Guðmundsson. Þarnæsti viðburður verður á þorranum, en nú um nokkurt skeið höfum við dregið okkur út úr jólatónleikaösinni og haldið í staðinn upp á þorrann með þjóðlegum hætti.“