Elín María gefur kost á sér í 5. sæti
Elín María Jónsdóttir gefur kost á sér í 5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem fram fer 31. janúar. Undanfarin 16 ár hefur Elín sinnt móðurhlutverkinu sem aðalstarfi. Hún hefur tekið virkan þátt í foreldrastarfi í Mosfellsbæ og setið í stjórn Heimilis og skóla – samtaka foreldra. Á þessu kjörtímabili hefur hún verið fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í fræðslunefnd Mosfellsbæjar. Elín hefur jafnframt mikinn áhuga á skipulags- og byggingarmálum.
Elín er gift Mosfellingnum Guðmundi Erni Kjærnested og saman eiga þau fjögur börn á aldrinum 8-16 ára. „Ég tel að þekking mín og reynsla í fræðslumálum og foreldrastarfi muni nýtast vel á næsta kjörtímabili. Mér þykir óskaplega vænt um Mosfellsbæ og vil leggja mitt af mörkum til að bæta þjónustu við börn og taka þátt í uppbyggingu bæjarins, með það að leiðarljósi að Mosfellsbær haldi áfram í gildin sín – sveit í borg með mannvæna byggð og að áfram verði gott og eftirsóknarvert að búa í Mosfellsbæ.“




