Ekki öll kurl komin til grafar

Mosfellsbær er með velli bæjarins til skoðunar.

Mosfellsbær er með velli bæjarins til skoðunar.

Eins og kunnugt er tók Umhverfisstofnun sýni af gervigrasvöllum á höfuðborgarsvæðinu í vor og sendi utan til rannsóknar. Niðurstöður sýna ekki með óyggjandi hætti að gúmmíkurlið sé skaðlegt heilsu fólks og ekki er líklegt að leiðbeininga sé að vænta frá stofnuninni.
Umhverfisstofnun hefur horft til annarra umhverfisstofnana á Norðurlöndunum varðandi skaðsemi gúmmíkurls á sparkvöllum, en rannsóknir þeirra benda ekki til skaðsemi af völdum þess.
Mosfellsbær hefur notað grænhúðað SBR gúmmíkurl á gervigrasvellinum við Varmá. Húðunin veldur því að óæskileg efni losna síður úr því út í andrúmsloftið og hún bætir því gæði kurlsins.

Heilsa barna og ungmenna í fyrirrúmi
Samkvæmt upplýsingum frá Mosfellsbæ verða lagðar fram tillögur á næstunni. Þær munu fela í sér áherslu á að á öllum völlum í Mosfellsbæ verði gúmmíkurl sem innihaldi einungis ásættanleg efni með tilliti til heilsu barna og ungmenna sem stunda íþróttir á völlunum.
Metið verður ástand valla og lögð áhersla á að framleiðendur gúmmíkurlsins geti lagt fram fullnægjandi innihaldslýsingu sem tryggi að skaðleg efni sé ekki að finna í kurlinu. Þá stendur meðal annars til að ræða við KSÍ um endurnýjun kurls á þeim sparkvöllum sem sambandið hefur gefið.