Dagur og Danirnir
Ég hefði viljað sjá Dag vinna HM í handbolta með króatíska landsliðinu. Danmörk er frábært land, ég veit það eftir að hafa búið þar í sex ár. En það er bara ekkert skemmtilegt að sama liðið vinni alltaf. Ekki nema auðvitað fyrir Danina sjálfa. Dagur er mjög áhugaverður þjálfari sem hefur náð merkilegum árangri á sínum þjálfaraferli. Hann nær vel til leikmanna og nær öðrum fremur að skapa sterka liðsheild þar sem allir hafa hlutverk og allir skipta máli. Snorri Steinn landsliðsþjálfari Íslands getur lært margt af Degi, til dæmis að búa til þannig umhverfi að allir upplifi að þeim sé treyst og að þeir hafi mikilvægt hlutverk í liðinu. Of margir leikmenn okkar voru utan þess umhverfis á mótinu, fengu mjög fáar mínútur inni á vellinum og var kippt út af nánast við fyrstu mistök. Þetta er mitt mat, hafandi horft á leikina og líkamstjáningu leikmanna.
En, Danirnir, maður minn lifandi! Þetta er magnaður árangur, að vinna heimsmeistaratitil fjórum sinnum í röð. Þetta á ekki að vera hægt. Ég viðurkenni að ég veit ekki helstu ástæður þessa árangurs, en ætla að kafa ofan í þær og komast að þeim. Mig grunar að danska leiðin í samskiptum, að gefa öllum tækifæri á að segja sína skoðun, ræða innan hópsins og komast að sameiginlegri niðurstöðu sé hluti af skýringunni – það er ein leið til þess að skapa umhverfi þar sem öllum finnast þeir skipta máli. En þetta er enn bara tilgáta.
Hvernig er þetta í þínu umhverfi? Upplifir þú að þér sé treyst? Veistu þitt hlutverk? Treystir þú þínu fólki og gefur því svigrúm til að vaxa og dafna sem einstaklingar og um leið sem liðsheild? Við erum öll á einhvern hátt hluti af teymi. Sama hver staða okkar er í teyminu, þá getum við haft jákvæð áhrif á það.
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 6. febrúar 2025