Brúarland gengur í endurnýjun lífdaga

Ólafur Ingi Óskarsson

Brúarland er samofið sögu Mosfellssveitar og síðar Mosfellsbæjar í nærfellt 100 ár. Bygging þess hófst árið 1922 og lauk árið 1929. Brúarland er byggt eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar.
Byggingin hefur hýst margs konar starfsemi í gegnum áratugina. Þar var starfrækt símstöð og pósthús og þar hafa félagasamtök og kórar haft aðstöðu á ýmsum tímum. Brúarland var menningarhús og þingstaður sveitarinnar þar til hvoru tveggja var flutt í Hlégarð árið 1951.
Og ekki má gleyma því að í Brúarlandi voru höfuðstöðvar breska setuliðsins í upphafi fyrri heimsstyrjaldar. En hlutverk hússins sem skólahús er líklega það sem fyrst kemur upp í hugann þegar Brúarland ber á góma. Síðustu árin hefur það staðið autt en unnið að ýmsum endurbótum og viðhaldi.

Félagsstarf eldri borgara
Það mun hafa verið fyrir 15 árum síðan að Félag aldraðra í Mosfellsbæ falaðist fyrst eftir því að fá Brúarland til afnota undir félagsstarf. Af því varð ekki þá og húsið nýtt undir nýstofnaðan Framhaldsskóla í Mosfellsbæ og síðan nýstofnaðan Helgafellsskóla. En hugmyndin um félagsstarf í Brúarlandi var komin á flot.
Mosfellsbær er hratt stækkandi sveitarfélag og fólki á öllum aldri fjölgar, líka eldri borgurum. Hressum og kátum. Við vitum að maður er manns gaman og mikilvægt er að vinna gegn félagslegri einangrun fólks og efla það til þátttöku.
Sumarið 2023 ákvað bæjarstjórn að opna Hlégarð á þriðjudögum undir félagsstarf aldraðra. Skemmst er frá því að segja að sú ákvörðun sló í gegn. Þátttakendur steymdu að og mjög margt fólk mætti sem ekki hafði áður nýtt sér tilboð félagsstarfsins á Eirhömrum.
Sumarið 2023 var farið að skoða hvernig félagsstarfi aldraðra væri best fyrir komið og hvaða þarfir væru fyrir hendi sem þyrfti að uppfylla. Velferðarnefnd ákvað þann 31. október 2023 að fela Velferðarsviði að vinna að tillögum um hvernig aðstöðu til félagsstarfs aldraðra yrði best fyrir komið. Undir árslok það ár var orðið ljóst að sú lausn sem unnið hafði verið með að stækka aðstöðu undir félagsstarfið í samstarfi við EIR myndi ekki ganga eftir.
Fljótlega kom sú hugmynd fram að kanna fýsileika þess að taka Brúarland undir starfsemi félagsstarfsins. Hafist var handa við að skoða hversu vel Brúarland hentaði fyrir félagsstarfið ásamt því að rætt var við forsvarsfólk félagsstarfsins um vilja félagsstarfsins til þess að flytja meginhluta sinnar starfsemi í Brúarland. Félag aldraðra var einnig inni í þessu samtali.
Í stuttu máli hefur þessi vegferð sem hrundið var af stað með samþykkt Velferðarnefndar haustið 2023 leitt til þess að þann 28. ágúst síðastliðinn var þetta sögufræga og merka hús afhent Félagsstarfi aldraðra í Mosfellsbæ til afnota. Félagsstarfið er þá til húsa á þremur stöðum, í Eirhömrum, Hlégarði og núna líka í Brúarlandi. Það er verulegt tilhlökkunarefni að fylgjast með starfseminni blómstra á öllum þessum stöðum.

Ólafur Ingi Óskarsson
formaður Velferðarnefndar og varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar